
Þess er vænst að Vladimir Pútin Rússlandsforseti flytji sjónvarpsávarp miðvikudaginn 25. mars vegna vaxandi hættu í Rússlandi af kórónaveirunni. Sama dag hvatti Mikhail Mishustin, forsætisráðherra Rússlands, héraðsstjóra til að hafa hraðar hendur við að skapa hjúkrunarrými fyrir kóróna-sjúklinga.
Birtar voru tölur 25. mars sem sýna 658 smitaða í Rússlandi miðað við 495 þriðjudaginn 24. mars. Tatiana Golikova varaforsætisráðherra sagði fjölgunina næstum þrisvar sinnum hærri en að meðaltali áður.
„Nú eru tilvikin 658 í 55 héruðum Rússlands. Alls hafa 29 náð sér af veikinni. Þá eru 112.000 manns undir eftirliti í sjálfskipaðri einangrun,“ sagði Golikova á fundi samráðshóps um viðbrögð gegn veirunni hvarvetna í Rússlandi.
Mishustin flutti varnaðarorð sín til héraðsstjóra daginn eftir að borgarstjóri Moskvu sagði Vladimir Pútin að í einstökum héruðum Rússlands gripu menn ekki til nægilegra öflugra aðgerða gegn faraldrinum.
Í fyrri viku sagði Pútin að vegna tímabærra forvarnaraðgerða stjórnar sinnar við upphaf faraldursins hefði tekist að koma í veg fyrir „magnaðan faraldur“ í Rússlandi. Hann fullyrti að stjórnvöld hefðu „stjórn“ á gangi mála.
Þrátt fyrir þessar yfirlýsingar forsetans juku margir Rússar kaup á matvælum og öðrum nauðsynjum til að búa sig undir svipaðar frelsisskerðingar og í öðrum ríkjum.
Íbúar Rússlands eru um 144 milljónir og eru sameiginleg landamæri Rússlands og Kína alls um 4.000 km löng.
Um helgina gripu rússnesk stjórnvöld til ýmissa aðgerða gegn veirunni, má þar nefna lokun landamæra og skóla auk þess sem flugferðum var aflýst. Þá er hafin smíði á stóru sjúkrahúsi í úthverfi Moskvu, er þar farið að fordæmi Kínverja sem reistu sjúkrahús með hraði til að bregðast við veikinni hjá sér.