Home / Fréttir / Rússar boða þrjár nýjar herdeildir gegn NATO

Rússar boða þrjár nýjar herdeildir gegn NATO

Rússneskir hermenn
Rússneskir hermenn

 

Rússnesk stjórnvöld ætla að koma á fót þremur nýjum herdeildum til að svara ákvörðunum innan NATO um að efla herafla á austur-landamærum sínum. Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, skýrði frá þessu miðvikudaginn 4. maí.

„Varnarmálaráðuneytið hefur gripið til ráðstafana til að svara útþenslu NATO rétt við landamæri lands okkar,“ sagði varnarmálaráðherrann.

Fréttir hafa birst um að NATO muni senda allt að 4.000 hermenn frá Bandaríkjunum, Þýskalandi og Bretlandi til Eystrasaltsríkjanna og Póllands vegna óska þessara ríkja um aukinn viðbúnað vegna yfirgangs Rússa. Þeir hafa ögrað bandarísku herskipi á Eystrasalti með náflugi og stundað sama leik gegn bandarískum eftirlitsflugvélum á svæðinu.

Alexander Golts, rússneskur herfræðingur við Uppsala-háskóla í Svíþjóð, segir að ögrunum af þessu tagi verði haldið áfram þar til Vladimír Pútín Rússlandsforseti telji Bandaríkjastjórn sýna Rússlandi hæfilega virðingu.

„Ráðamenn Vesturlanda geta ekki hundsað Rússa. Reyni þeir að hundsa Rússa munu þeir taka sífellt meiri áhættu,“ segir Golts og bætir við að fulltrúar Rússa og NATO verði að finna leið til tala saman. „Það þarf að finna leiðir til að tryggja að atvik af þessu tagi hafi ekki hörmulegar afleiðingar.“

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði á blaðamannafundi í Mons í Belgíu miðvikudaginn 4. maí að bandalagið hefði ekki skipulagt aukin hernaðarumsvif í Eystrasaltsríkjunum ef Rússar hefðu ekki beitt hervaldi gegn Úkraínu árið 2014. Stoltenberg sagðist hafa séð skýrslur um að Rússar efldu her sinn „skammt frá landamærum NATO“.

„Þetta er hluti stærri myndar sem hefur verið að mótast á mörgum árum,“ sagði Stoltenberg. NATO vildi bregðast við aukinni hörku Rússa sem hefðu sýnt vilja til að beita valdi til að breyta landamærum. NATO gripi til aðeins til varnaraðgerða og sýna yrði á skýran hátt að bandalagsríkin stæðu saman, það héldi andstæðingnum í skefjum.

Stoltenberg sagði að lokaákvörðun um að fjölga í fastaliði bandalagsins um eitt stórfylki í nokkrum Austur-Evrópuríkjum yrði tekin á leiðtogafundi bandlagsins í Varsjá í júlí. Í liðinu yrðu hermenn frá fleiru ríki en einu til að sýna samstöðuna innan bandalagsins.

Þrátt fyrir lækkun olíuverðs og efnahagsþvinganir Vesturlanda hafa Rússar varið miklum fjármunum undanfarið til að endurskipuleggja og nútímavæða herafla sinn. Pútín hefur lofað að verja meira en 300 milljörðum dollara fyrir lok áratugarins til að umbreyta rússneska hernum.

Í þremur herdeildum yrðu um 30.000 hermenn en óljóst er hvort stofna eigi þær frá grunni eða með því að endurskipuleggja herafla sem er þegar fyrir hendi.

Golts telur að tvær herdeildir í vesturhluta Rússlands fái það hlutverk að svara beint fjölgun í NATO-herjum í Eystrasaltslöndunum og Póllandi. Þriðja herdeildin verði síðan í suðri við Úkraínu.

Shoigu sagði að smíði höfuðstöðva fyrir herdeildirnar væri þegar hafin.

Heimild: The Wall Street Journal.

Skoða einnig

Zelenskíj segir Bakhmut ekki á valdi Rússa

  Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki …