Home / Fréttir / Rússar boða stórfelldar fjárfestingar og framkvæmdir á Norðurskautssvæðinu

Rússar boða stórfelldar fjárfestingar og framkvæmdir á Norðurskautssvæðinu

Frá höfninni í Sabetta.
Frá höfninni í Sabetta.

 

Rússneska ríkisstjórnin hefur kynnt stórhuga 5-ára áætlun um fjárfestingu á norðurskautssvæðinu. Þar er um að ræða svæðisbundna innviði og nýtingu auðlinda.

Atle Staalsen, blaðamaður norska vefmiðilsins Barents Observer, gerði grein fyrir þessum áformum Rússa á vefsíðunni föstudaginn 14. desember. Hér verður stuðst við frásögn hans.

Ríkisstjórn Rússlands kom saman til fundar í hafnarborginni Sabetta á Jamal-skaga í Síberíu mánudaginn 10. desember. Þar var Dmitríj Medvedev forsætisráðherra með lykilráðherrum sínum og forystumönnum úr viðskiptalífinu.

Dmitríj Kobjilkin auðlindamálaráðherra kynnti 5-ára fjárfestingaráætlunina sem nemur 5,5 trilljónum rúblna. Hún nær aðeins til ársins 2024 og ráðherrann gerði lýðum ljóst að eftir það yrði varið mun meira fé til fjárfestinga á svæðinu. Alls þyrfti að verja 13,5 trilljónum rúblna til uppbyggingar þarna til ársins 2050.

Stefnt er að því að aðeins 900 milljörðum rúblna (12 milljörðum evra) verði ráðstafað af rússneskum fjárlögum í þessu skyni. Fyrirtæki eiga að leggja hitt af mörkum, 12,5 trilljónir rúblna (167,8 milljarða evra).

Með þessum fjármunum er ætlunin að fjárfesta í innviðum og vinnslu náttúruauðlinda, þar má nefna lagningu járnbrauta, gerð nýrra hafna og þróun vinnslusvæða fyrir kolvetni og kol.

Þessi áform taka mið af því að rússneska stjórnkerfið lagar sig að kröfu Vladimirs Pútíns forseta um að alls verði 80 milljón tonn af varningi fluttar með skipum á Norðurleiðinni árið 2024, það er Norður-Íshafs leiðinni fyrir norðan Rússland.

Medvedev forsætisráðherra segir að á norðurskautssvæðinu sé að finna mestu náttúruauðlindir Rússlands og að strategískt gildi svæðisins sé gífurlegt.

„Hér er það þar sem tvö mikilvægustu verkefni okkar ráðast – að tryggja þjóðaröryggi og auðvitað að tryggja afkomu þjóðarbúsins,“ sagði forsætisráherrann. „Við ættum að einbeita okkur að því að þróa svonefnd grunnstoða-verkefni sem munu skapa algjörlega nýjar forsendur fyrir þróun Norðurleiðarinnar og að um hana sé siglt allan ársins hring.“

Fundurinn í hafnarborginni Sabetta var haldinn þegar risafyrirtækið Novatek opnaði formlega þriðju vinnslulínuna í Jamal-jarðgasverkefni sínu. Segist það nú geta framleitt 16,5 milljónir tonna af fljótandi jarðgasi (LNG) til útflutnings á ári.

Hér verður ekki látið staðar numið. Rússar stefna að því að hlutdeild þeirra í framleiðslu á fljótandi jarðgasi verði árið 2035 orðin 20% af heimsframleiðslunni miðað við 4% núna. Novatek er aðili að Norðurskauts LNG-2 verkefninu auk Jamal-verkefnisins og segir Medvedev að árstekjur af þeim einum verði meira en 30 milljarðar dollara. Vegna þeirra verði sjóflutningar á Norðurleiðinni 40 milljón tonn – helmingur þess sem Pútín krefst.

Hinn helmingurinn kemur frá nýjum olíulindum og kolanámum. Atle Staalsen lýsir áformum víða á Norðurskautssvæðinu sem snúa að vinnslu á olíu og kolum og vitnar í það sem Aleksandr Novak, orkumálaráðherra Rússa, hefur sagt um áform á því sviði. Þar sé um að ræða verkefni sem leiði til þess að flutningar á Norðurleiðinni aukist um 65 milljón tonn á ári og verði 95 milljón tonn árið 2030 og eftir 2035 nemi flutningarnir 130 til 160 milljón tonnum árlega.

Á fundinum sagði Medvedev forsætisráðherra: „Það er ekki aðeins nauðsynlegt að gera hafnir, við verðum einnig að leggja leiðslur, járnbrautir, efla flugsamgöngur, orkuframleiðslu.“

Allt á að snúast í kringum Norðurleiðina. Þar má tildæmis nefna Norður-breiddargráðu-brautina, fyrirhugaða járnbraut sem ætlað er að tengja öflug námu- og járnvinnslu fyrirtæki í Vestur-Síberíu við norðurhafnirnar. Í fyrsta áfanga verður lögð 500 km löng járnbraut með brú yfir Ob-fljót. Í öðrum áfanga verður lögð ný járnbraut til hafnarborgarinnar Sabetta.

Verðmiðinn á Norður-breiddargráðu-brautinni er 240 milljarðar rúblna (3.2 milljarðar evra). Ríkið stendur aðeins undir 5% af kostnaðinum sagði Medvedev. Eftir að járnbrautin hefur verið lögð til Sabetta bætast 25 milljónir tonna við flutninga á Norðurleiðinni segir ríkisstjórnin.

Ráðherrarnir segja að ráðast verði í mannvirkjagerð utan Norðurleiðarinnar. Þar á meðal má nefna ný umskipunar-mannvirki í Ura Guba á Kóla-skaga sem eiga að duga til að afgreiða 20,9 milljón tonn og ætlað er að koma til sögunnar 2023.

Á fundinum í Sabetta sagði Leonid Mikhelson, forstjóri Novatek, að hraða yrði framkvæmdum í Ura Guba og ljúka þeim árið 2022 til að binda enda á bráðabirgðaástandið sem nú ríkir þegar fljótandi jarðgas (LNG) er flutt milli skipa í norskri lögsögu.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …