Home / Fréttir / Rússar boða óvenjulegar flugskeytaæfingar á Eystrasalti

Rússar boða óvenjulegar flugskeytaæfingar á Eystrasalti

Hér má sjá rússneska hermenn vinna við að setja Iskander-skotflaug á pall.
Hér má sjá rússneska hermenn vinna við að setja Iskander-skotflaug á pall.

Sendimenn þeirra ríkja sem ákváðu að reka rússneska stjórnarerindreka úr landi vegna eiturefnaárásarinnar í Salisbury á Suður-Englandi sunnudaginn 4. mars voru kallaðir í rússneska utanríkisráðuneytið föstudaginn 30. mars og þeim tilkynnt að þeir yrðu að fækka í sendiráðum sínum í Moskvu. Þá ákvað rússneska stjórnin að loka ræðisskrifstofu Bandaríkjanna í St. Pétursborg.

Stjórnir allra Norðurlandanna fyrir utan Íslands ráku rússneska stjórnarerindreka úr landi. Þær búa sig undir versnandi sambúð við Rússa sem kröfðust þess fimmtudaginn 29. mars að lokað yrði flugleiðum í milli dönsku eyjunnar Borgundarhólms og sænsku eyjunnar Ölands vegna rússneskra æfinga með flugskeyti.

Sænska ríkisútvarpið sagði fimmtudaginn 29. mars að í næstu viku ætluðu Rússar að efna til æfinga með flugskeytum í háloftunum yfir suðurhluta Eystrasalts. Segja Svíar að æfingin sé mjög óvenjuleg og verði farþegavélar að breyta flugleiðum sínum í öryggisskyni.

Sænsku samgöngustofunni barst tilkynning um þetta frá Rússum og sagði í henni að æfingin yrði á svæði sem fellur undir flugstjórnarsvæði Svía á milli Ölands og Borgundarhólms.

„Þetta er óvenjulegt. Ég hef aldrei kynnst þessu fyrr,“ segir Jörgen Andersson, sem sinnir flugöryggismálum í sænsku samgögustofunni. Hann segir að venjulega séu margar farþegavélar á ferð um yfirlýsta æfingasvæðið. Nú verði að breyta ferðum flugvélanna.

Sænska útvarpið segir að á undanförnum árum hafi Rússar stóraukið heræfingar sínar á Eystrasalti. Ekki sé vitað hvað eigi að æfa núna. Æfingarnar kunni að snúast um loftvarnir eða að flugskeyti komi til jarðar á svæðinu. Haft er eftir mönnum innan sænska hersins að um mjög óvenjulegan atburð sé að ræða.

Minnt er á að Rússar ráði yfir mörgum svæðum til heræfinga án þess að raska almennu farþegaflugi. Þá séu skotsvæði í grennd við Kaliningrad, rússnesku hólmlenduna við Eystrasalt milli Póllands og Litháens. Nú kjósi Rússar hins vegar að sækja enn vestar, nær Svíþjóð og dönsku eyjunni, Borgundarhólmi.

Jörgen Andersson segir að lokun æfingasvæðisins skapi ekki neina hættu fyrir farþegaflug.

 

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …