Home / Fréttir / Rússar boða ofur-hraðfleyga eldflaug fyrir 2020

Rússar boða ofur-hraðfleyga eldflaug fyrir 2020

OK-Hypersonisk
Hér hefur verið teiknuð mynd af mannlausri, ofur-hraðfleygri, bandarískri sprengjuvél. Bandaríkjamenn hafa lengi unnið að gerð ofur-hraðfleygra véla en Rússar einbeitt sér að þróun ofur-hraðfleygra eldflauga.

 

Rússar reikna með að eignast fyrir 2020 nýja gerð af ofur-hraðfleygum kjarnaflaugum. Þær muni ögra eldflaugavarnarkerfi Bandaríkjanna. Boris Obnosov, forstjóri deildar rússneska hersins fyrir skammdrægar flaugar, skýrði frá þessu í fyrri viku að sögn rússnesku fréttasíðunnar Sputniknews.

Sagt er að ofur-hraðfleygar eldflaugar geti farið allt að 12 sinnum hraðar en hljóð, eða á um 15.000 km hraða á klukkustund. Á þennan hátt megi nota þær til að brjótast í gegnum eldflaugavarnarkerfi þar sem ekki takist að virkja þau nógu fljótt gegn svo hraðfleygri ógn.

Það eru ekki aðeins eldflaugavarnarkerfin sem standast ekki árásir með þessari nýju tækni. Allur viðbúnaður til að forða sér undan yfirvofandi eldflaugaárás verður að gagnslaus að mati Karstens Marrups, sérfræðings í lofthernaði hjá danska varnarháskólanum.

„Með ofur-hraðfleygum eldflaugum er unnt ná til skotmarka hvar sem er á jörðinni á svo skömmum tíma að ekki gefst neitt ráðrúm til að verjast eldflaugaárás með þeim aðferðum sem nú þekkjast,“ sagði Karsten Maarup við Jyllands-Posten.

Bandaríkjamenn hafa árum saman unnið að þróun á ofur-hraðfleygri sprengjuvél. Markmiðið er að með henni megi ná til skotmarka hvar sem er á jörðinni innan 30 mínútna en án nýju tækninnar tæki það 18 klukkustundir segir Karsten Marrup.

Rússar segja að nýtt eldflaugavarnarkerfi NATO og Bandaríkjanna í Evrópu veiki kjarnorkuvarnir þeirra. Bandaríkjamenn segja hins vegar að Rússar þjáist af „strategískri vænisýki“.

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …