Home / Fréttir / Rússar boða meiri hervæðingu á Kólaskaga

Rússar boða meiri hervæðingu á Kólaskaga

Sergeij Shoigu varnarmálaráðherra á fundi yfirstjórnar rússneska hersins 19. apríl 2022.

Sergeij Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, birtist að nýju eftir nokkurra vikna fjarveru á fundi með yfirstjórn rússneska hersins þriðjudaginn 19. apríl og lýsti stöðu mála.

Hann útskýrði í ræðunni, sem var sjónvarpað, sagnfræðilegar ástæður fyrir „aðgerðunum“ sem nú stæðu yfir í Úkraínu.

„Við gerum nú ráðstafanir til að koma að nýju á friðsömu lífi,“ sagði ráðherrann kaldhæðnislega þegar hann laug blákalt að borðalögðum foringjunum umhverfis hann. Honum var vel ljóst að undir hans stjórn var laskaður rússneski herinn að búa sig undir nýja árás á almenna borgara í Úkraínu.

Ráðherrann sagði að atburðir síðustu mánaða sýndu hve Rússum væri mikilvægt að vinna áfram að endurbótum á herafla sínum.

Í því sambandi nefndi hann nokkur forgangsverkefni. Meðal þeirra var endurhervæðing Kóla-skagans á norðvestur horni Rússlands með landamæri að Noregi og Finnlandi. Á skaganum, fyrir norðan borgina Múrmansk, eru heimahafnir Norðurflotans og langdrægra kjarnorkukafbáta hans.

Í fyrra var staða Norðurflotans innan rússneska herstjórnakerfisins breytt og hefur hann nú sömu stöðu og svæðisbundnar herstjórnir. Á hans herðum hvílir hernaðarleg ábyrgð á norðvestur héruðum Rússlands og norðurslóðum (e. Arctic), þar á meðal eyjaklösum þar sem flugvellir hafa verið endurnýjaðir ásamt loftvarnakerfum.

Ráðherrann sagði að á árinu 2022 yrði haldið áfram að auka bardagagetu hersveitanna. Nú væri unnið að því að styrkja bardagagetu einstakra liðssveita og endurnýja vopnabúnað. Meira en 500 einingar nýrra vopna yrðu til ráðstöfunar.

Í frétt norsku vefsíðunnar BarentsObserver segir að ráðherrann hafi ekki farið í saumana á því hver þessi vopnakerfi séu, aðeins nefnt ratsjár og skotkerfi fyrir loftvarnaflaugar.

Thomas Nilsen, ritstjóri BarentsObserver, minnir á að á síðunni hafi áður birst gervihnattarmyndir sem sýni nokkra tugi nýrra stórra vopnabúra fyrir flaugar í smíðum við Okolnaja-flóa andspænis Severomorsk, höfuðstöðvum Norðurflotans, fyrir norðan Múrmanks.

Við sama flóa er einnig unnið að hafnarmannvirkjum sem eiga að auðvelda að setja langdrægar eldflaugar um borð í kafbáta sem smíðaðir eru á strönd flóans.

Í ræðunni yfir herforingjunum gat Sergeij Shoigu frætt þá um að 117 mannvirki hefðu verið reist við endurnýjun hernaðarmannvirkja á norðurslóðum. Í ár, 2022, yrði unnið við 28 mannvirki til viðbótar.

Á gervihnattarmynd má sjá að unnið er að smíði risastórs neðanjarðarbyrgis sem skipt er í fjóra hluta. Óvíst er hvaða vopn verða geymd í byrginu en hugsanlega verði það nýju ofurhljóðfráu Tsirkon-flaugarnar. Í fyrri fréttum hefur komið fram að Norðurflotinn verði fyrstur rússneska herstjórna til að fá mannvirki sem dugi til geymslu og þjónustu við þessar flaugar.

Ráðherrann sagði að ætlunin væri að efla bardagamátt 14. stórdeildar hersins um 1,5 miðað við það sem hann er núna. Í stórdeildinni eru tvö véla-stórfylki á Múrmansk-svæðinu, 200. stórfylkið í Petsamó, skammt frá norsku landamærunum, og 80. stórfylkið í Alakurtti, skammt frá finnsku landamærunum.

Fréttir eru um að liðsmenn úr 200. stórfylkinu hafi verið sendir í stríðið í Úkraínu og mannfall orðið mikið.

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …