Home / Fréttir / Rússar boða Kinzhal-skotflaugar í Norðurflotanum – gjörbreyting fyrir nágrannaþjóðir

Rússar boða Kinzhal-skotflaugar í Norðurflotanum – gjörbreyting fyrir nágrannaþjóðir

 Stefnumarkandi ákvörðun hefur verið tekin um að rússneski Norðurflotinn vígbúist með ofurhljóðfráum Kinzhal-skotflaugum. Þjálfun vegna flauganna og mannvirkjagerð hefst á árinu 2021. Þetta segir fulltrúi rússneska varnarmálaráðuneytisins við blaðið Izvestiu. Ekki kemur fram hvenær gert er ráð fyrir að eldflaugin verði orðin hluti vopnabúnaðar Norðurflotans. Atle Staalesen segir á norsku vefsíðunni Barents Observer miðvikudaginn 16. desember að frá því í desember 2019 hafi verið rætt um að skotflaugarnar yrðu í Norðurflotanum. Þá hitti Valeríj Gerasimov, yfirmaður rússneska herráðsins, 150 hermálafulltrúa erlendra sendiráða og sagði þeim að verið væri að leggja net flugvalla sem gerði kleift að stækka afnotasvæði þessara flauga. Vísaði hann þar til afnota af nýjum flugvöllum á norðurslóðum. Rússar vinna nú að flugvallargerð á að minnsta kosti fimm stöðum lengst í norðri, það er Rogatsjevo á Novaja Zemlja, Nagurskoje á Franz Josef Land, Srednij á Severnaja Zemlja, Kotelnij á Nýju-Síberíueyjum og Wrangeleyju. MiG-31-orrustuþotur bera Kinzhal-flaugarnar og eru slíkar þotur nú í stöð við Montsjegorsk á Kólaskaga. Þær má nota undir flaugarnar segir Izvestia. Jafnframt er rætt um að opna nýja flugherstöð á þessu svæði. Vladimir Pútin Rússlandsforseti varð fyrstur til að kynna Kinzhal-eldflaugina á opinberum vettvangi í mars 2018. Nýja eldflaugakerfinu má lýsa sem fljúgandi útgáfu af Iskander, skammdrægu landeldflauginni. Með því að setja slíka flaug um borð í flugvél magnast hættan af henni. Ofurhljóðfráum hraða nær eldflaugin af því að henni er skotið á braut um geiminn í átt að skotmarki sínu, skilur það á milli hennar og stýriflauga sem er stjórnað í gufuhvolfinu. Tilraunaskot voru með Kinzhal-flaugar yfir Barentshafi í nóvember 2019. Þá var sagt að flauginni hefði verið skotið á tíföldum hljóðhraða, 10 Mach. Flaugina má nota til að flytja venjulega sprengjuodda eða kjarnorkuodda. Talið er að flauginni megi skjóta á skotmark í allt að 2.000 km fjarlægð. Með flauginni skapast algjörlega ný hernaðarleg staða fyrir nágrannaþjóðir Rússa á norðurslóðum.   MiG-31-orrustuþota Kinzhal-skotflaug.

Stefnumarkandi ákvörðun hefur verið tekin um að rússneski Norðurflotinn vígbúist með ofurhljóðfráum Kinzhal-skotflaugum. Þjálfun vegna flauganna og mannvirkjagerð hefst á árinu 2021.

Þetta segir fulltrúi rússneska varnarmálaráðuneytisins við blaðið Izvestiu. Ekki kemur fram hvenær gert er ráð fyrir að eldflaugin verði orðin hluti vopnabúnaðar Norðurflotans.

Atle Staalesen segir á norsku vefsíðunni Barents Observer miðvikudaginn 16. desember að frá því í desember 2019 hafi verið rætt um að skotflaugarnar yrðu í Norðurflotanum. Þá hitti Valeríj Gerasimov, yfirmaður rússneska herráðsins, 150 hermálafulltrúa erlendra sendiráða og sagði þeim að verið væri að leggja net flugvalla sem gerði kleift að stækka afnotasvæði þessara flauga. Vísaði hann þar til afnota af nýjum flugvöllum á norðurslóðum.

Rússar vinna nú að flugvallargerð á að minnsta kosti fimm stöðum lengst í norðri, það er Rogatsjevo á Novaja Zemlja, Nagurskoje á Franz Josef Land, Srednij á Severnaja Zemlja, Kotelnij á Nýju-Síberíueyjum og Wrangeleyju.

MiG-31-orrustuþotur bera Kinzhal-flaugarnar og eru slíkar þotur nú í stöð við

Montsjegorsk á Kólaskaga. Þær má nota undir flaugarnar segir Izvestia. Jafnframt er rætt um að opna nýja flugherstöð á þessu svæði.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti varð fyrstur til að kynna Kinzhal-eldflaugina á opinberum vettvangi í mars 2018.

Nýja eldflaugakerfinu má lýsa sem fljúgandi útgáfu af Iskander, skammdrægu landeldflauginni. Með því að setja slíka flaug um borð í flugvél magnast hættan af henni.

Ofurhljóðfráum hraða nær eldflaugin af því að henni er skotið á braut um geiminn í átt að skotmarki sínu, skilur það á milli hennar og stýriflauga sem er stjórnað í gufuhvolfinu.

Tilraunaskot voru með Kinzhal-flaugar yfir Barentshafi í nóvember 2019. Þá var sagt að flauginni hefði verið skotið á tíföldum hljóðhraða, 10 Mach. Flaugina má nota til að flytja venjulega sprengjuodda eða kjarnorkuodda. Talið er að flauginni megi skjóta á skotmark í allt að 2.000 km fjarlægð. Með flauginni skapast algjörlega ný hernaðarleg staða fyrir nágrannaþjóðir Rússa á norðurslóðum.

 

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …