Home / Fréttir / Rússar boða gæslu þjóðaröryggis í Norðurskautsráðinu

Rússar boða gæslu þjóðaröryggis í Norðurskautsráðinu

Frá fundi í rússneska öryggisráðinu.
Frá fundi í rússneska öryggisráðinu.

Rússar taka við formennsku í Norðurskautsráðinu af Íslendingum á næsta ári og er búist við að það gerist við hátíðlega athöfn í Reykjavík í maí 2021. Nú þegar gefa rússneskir ráðamenn til kynna að þeir muni setja eigið þjóðaröryggi í forgang á meðan þeir fara með formennsku í ráðinu.

Dmitríj Medvedev, fyrrverandi forseti og forsætisráðherra Rússlands, er nú varaformaður öryggisráðs Rússlands en innan þess hefur nú verið skipuð sérstök norðurslóðanefnd og efndi hún til fyrsta fundar síns nú í vikunni.

Í ræðu sem Medvedev flutti við þetta tilefni sagði hann að „ákveðin NATO-ríki, þar á meðal Bandaríkin, reyna að takmarka umsvif Rússa á norðurslóðum“ og gaf til kynna að rússnesk stjórnvöld sættu sig ekki við þessa þróun.

Hann sagði Rússa vilja frið, stöðugleika og samstarf öllum til hagsbóta en NATO-ríki vildu þetta ekki. „Allt eru þetta auðvitað beinar ógnir við þjóðaröryggi okkar,“ sagði Medvedev.

Hann lagði áherslu á vaxandi strategíska hagsmuni Rússa á norðurslóðum bæði efnahagslega og hernaðarlega.

„Þetta svæði hefur sérstakt strategískt gildi fyrir okkur. Þar sinnir ríkið mikilvægustu verkefnum sínum – að gæta efnahags okkar og þjóðaröryggis,“ sagði hann og lýsti áformum um frekari umsvif Rússa á svæðinu með orkuvinnslu og mannvirkjagerð. Þeir mundu ekki láta aðra koma í veg fyrir þessi áform.

Medvedev sagði ekki hjá því komist að alþjóðastofnanir tækju mið að breyttum aðstæðum. Þar skipti Norðurskautsráðið miklu máli. Rússar yrðu að búa sig vandlega undir tveggja ára formennskutíð sína í ráðinu. Innan tíðar yrði komið á fót sérstakri nefnd til að undirbúa formennskuna á vegum rússnesku ríkisstjórnarinnar.

Starfið innan þeirrar nefndar yrði unnið samhliða því sem rússneska utanríkisráðuneytið og ráðuneyti málefni Austurlanda fjær og norðurslóða (e. Arctic) mótuðu viðhorf sín. Medvedev sagði að ráðuneytin mundu kynna stefnu sína í febrúar 2021.

Tekið er fram í stofnskrá Norðurskautsráðsins, Ottawa-yfirlýsingunni frá 1996, að ekki skuli fjallað um hernaðarleg öryggismál í ráðinu.

Hér er stuðst við það sem sagði um stefnumörkun Rússa á norsku vefsíðunni Barents Observer miðvikudaginn 14. október. Þar sagði að það skýrðist æ betur að Dmitríj Medvedev og rússneska öryggisráðið mundu gegna lykilhlutverki af hálfu Rússa á meðan þeir færu með formennsku í Norðurskautsráðinu. Öryggisráðið hefur um árabil látið sig norðurslóðamál varða og skipulagt fjölda funda um þau með háttsettum erlendum þátttakendum. Tilkoma sérstakrar norðurslóðanefndar innan ráðsins sýnir að áherslan á norðurslóðamál eykst enn frekar innan ráðsins.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti er formaður rússneska öryggisráðsins. Þar eiga sæti 12 fulltrúar lykilstofnana Rússlands og hittast þeir vikulega í ráðinu.

 

 

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …