Rússar hafa tilkynnt flotaæfingar í febrúar um 150 mílur suðvestur af Írlandi. Rússnesk herskip æfa þar innan írsku efnahagslögsögunnar en utan landhelginnar.
Simon Coveney, utanríkisráðherra Írlands, skýrði frá þessu mánudaginn 24. janúar og sagði að skilaboð um æfingarnar hefðu borist frá Moskvu um helgina. Hann sagði rússnesku herskipin „óvelkomin“ á þessar slóðir en Írar hefðu „ekki bolmagn til að hindra að þetta gerðist“.
Írar eru hlutlausir og utan NATO og án varnarsamnings við önnur ríki. Samkvæmt hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna má efna til heræfinga innan efnahagslögsögu annarra ríkja svo framarlega sem ekki sé farið inn fyrir landhelgi þeirra.
Flotaæfingin undan strönd Írlands er liður í miklu víðtækari flotaæfingu Rússa sem nær til 140 skipa og 10.000 manna frá herflotum þeirra á Atlantshafi, Kyrrahafi, Miðjarðarhafi, Norðursjó og Okhotskhafi. Fer æfingin fram í janúar og febrúar.
Litið er á æfinguna í ljósi spennunnar sem nú ríkir umhverfis Úkraína og óttans við að þar komi til hernaðarátaka.
Bent er á að það sé engin tilviljun að þessi staður sé valinn til flotaæfinga. Rússar vilji minna Evrópuþjóðir á að þeir ráði yfir öflugum herflota. Þetta er ekki í fyrsta sin sem rússneski flotinn efnir til æfinga í nágrenni Írlands en staðarvalið hefur fyrst og síðast pólitískt gildi því að æfingin hefði sama gildi fyrir áhafnir skipanna færi hún fram fyrir norðan Múrmansk. Rússar hafa ekki aðeins látið að sér kveða á hafi úti í grennd við Írlandi heldur einnig með
Um helgina kallaði Bandaríkjastjórn flesta stjórnarerindreka sína frá Kiev til að tryggja öryggi þeirra. Breska stjórnin greip til þess sama mánudaginn 24. janúar.
Fréttir eru um að Joe Biden Bandaríkjaforseti íhugi að senda 5.000 bandaríska hermenn til Eystrasaltssvæðisins en fjöldinn gæti nálgast 50.000 þegar litið væri til herskipa og flugvéla.
Þá hafa evrópsk NATO-ríki sent herskip, hermenn og herflugvélar til Eystrasaltslandanna eftir að utanríkisráðherra Lettlands óskaði eftir að gripið yrði til „mótvægisaðgerða“ gegn Rússum.
Danir senda freigátu til austurhluta Eystrasalts og F-16 orrustuþotur til Litháens. Spánverjar senda herskip til viðbótar við fastaflota NATO og undirbúa að senda orrustuþotur til Búlgaríu. Frakkar eru undir það búnir að senda herlið til Búlgaríu.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði 24. janúar að bandalagið gerði allt sem nauðsynlegt væri til vernda og verja bandalagsþjóðirnar.
Stjórnvöld í Kreml fordæmdu þessar aðgerðir undir merkjum NATO og sökuðu Vestrið um að ala á „móðursýki“ vegna stríðs í Úkraínu sem væri nú mun líklegra en áður vegna vopnaflutninga til svæðisins.
Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, varaði Vladimir Pútin Rússlandsforseta við að ráðast inn í Úkraínu, það yrði „hörmulegt skref“ og mundi leiða til sárauka, ofbeldis og blóðsúthellinga.
Utanríkisráðherrar ESB komu saman í Brussel 24. janúar til að árétta samstöðu sína gegn Rússum. Þeir sögðu að réðust Rússar inn í Úkraínu yrði gripið til refsiaðgerða í þeirri mynd sem hefði aldrei sést áður.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði unnið að því að senda aðstoð til Úkraínu sem meta mætti á einn milljarð evra.