
„Áhrifasvæði rússneskra flugskeyta“ segir í stuttri tilkynningu til flugmanna (NOTAM) um hættusvæði fyrir norðan Noreg (sjá kort). Viðvörunin gildir fyrir tímann frá 18. til 24. febrúar.
Á vefsíðunni Barents Observer segir 17. febrúar 2021 að tímasetningin sé engin tilviljun. Á næstu dögum verða bandarískar, langdrægar B-1-sprengjuvélar í fyrsta sinn í Ørland-flugherstöðinni skammt fyrir norðan Þrándheim. Um 200 manna þjónustusveit bandarískra hermanna hefur nú þegar í flugherstöðina vegna B-1-vélanna.
Kristian Åtland, sérfræðingur við norsku varnarrannsóknarstofnunna (FFI), segir við Barents Observer að tímasetning Rússa og staðarval fyrir hættusvæði flugvéla á Barentshafi bendi til þess að þeir séu að svara komu bandarísku vélanna til Noregs. Á þennan hátt vilji ráðamenn í Moskvu láta í ljós óánægju sína með þá þróun að bandarískar hervélar séu tímabundið með aðsetur á norsku landi.
Hann bendir jafnframt á að hættusvæði sé boðað við 24. lengdarbaug. Það sé ekki tilviljun því að norsk stjórnvöld fylgi þeirri reglu að flugvélar frá bandalagsríkjum þeirra æfi að jafnaði ekki fyrir austan þessa línu.
Frá Knöskanesi um Bjarnareyju til Svalbarða eru skilin milli grunnsævis í Barentshafi og aukins dýpis í Noregshafi.
Kristian Åtland segir að sé litið til „brjóstvarna“ Rússa fyrir Norðurflota sinn skipti þetta svæði miklu máli. Í stuttu máli sagt vilji Rússar stjórna umferð skipa fyrir austan þessa ímynduðu línu og halda skipum frá dýpri hafsvæðum fyrir vestan Barentshaf og sunnan. Komist rússneskir kafbátar vestur fyrir Bjarnareyjar-hliðið frá Kólaskaga sé miklu erfiðara fyrir skip og flugvélar frá NATO-ríkjum að finna þá í hafdjúpum Norður-Atlantshafs.
Kristian Åtland segir að skotæfingar Rússa og tilraunir með vopn séu orðnar fastur liður á Hvítahafi, Barentshafi og Noregshafi. Hann segir að þeir sem stundi fiskveiðar á þessum slóðum eða almennan flugrekstur verði oft fyrir óþægindum vegna æfinga Rússa. Því beri hins vegar að fagna að Rússar sendi frá sér NOTAM (Notice to Airmen) að þessu sinni, þeir fari þar að umsömdum reglum.
