
Efnavopnaárás í bænum Khan Sheikhoun í Sýrlandi þriðjudaginn 4. apríl hefur vakið reiði og hneykslan um heim allan. Er stjórn Bashars al-Assads Sýrlandsaforseta sökuð um árásina, þá mannskæðustu sem gerð hefur verið með efnavopnum í landinu um nokkurra ára skeið. Rússar bera blak af Sýrlandsstjórn.
Samtök í London sem fylgjast með mannréttindamálum í Sýrlandi sögðu miðvikudaginn 5. apríl að alls hefðu meira en 70 manns látist vegna árásarinnar og væri hún því sú mannskæðasta í Sýrlandi síðan árið 2013.
Varnarmálaráðuneyti Rússlands sendi frá sér yfirlýsingu miðvikudaginn 5. apríl þar sem sagði að líklega hefði sprengja úr flugvél sýrlenska hersins lent á „geymsluhúsi hryðjuverkamanna“ og við það hefðu „eitruð efni“ losnað úr læðingi. Ekki kom fram hvort árásin hafi verið gerð af ásetningi en efnin hafi átt að nota í nágrannaríkinu Írak.
Í tilkynningu sem Igor Konoshenkov, talsmaður rússneska varnarmálaráðuneytisins, setti á YouTube sagði:
„Í gær [þriðjudaginn 4. apríl] klukkan 11.30 til 12.30 að staðartíma gerðu sýrlenskar flugvélar árás á skotfæra-birgðastöð hryðjuverkamanna og geymslustað hergagna í austurjaðri bæjarins Khan Sheikhoun. Á þessum geymslustað voru tæki til að framleiða efnavopn.“
Hann sagði að sömu efndavopn hefðu verið notuð af uppreisnarmönnum í Aleppo í fyrra. „Eituráhrifin sem blasa við þegar litið er á fórnarlömbin í Khan Sheikhoun eru þau sömu og sjá mátti á myndskeiðum á samfélagsmiðlum frá Aleppo á nýliðnu hausti,“ sagði Konoshenkov.
Boris Johnson, utanríkisráðherra Breta, sagði miðvikudaginn 5. apríl að allt benti til þess að Assad-stjórnin hefði staðið að árásinni með fullri vitneskju um að hún beitti „ólöglegum vopnum í hrollvekjandi árás á eigin borgara“. Hann sagðist ekki sjá hvernig ríkisstjórn sem hagaði sér á þennan veg gæti gert nokkurt tilkall til að fara með stjórn mála í Sýrlandi.
Sigmar Gabriel, utanríkisráðherra Þýskalands, var varkarári í orðum en sagði að hefði sýrslenska stjórnin í raun gert efnavopnaárás væri um „óviðjafnanlegt grimmdarverk“ að ræða.
Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði að kalla yrði forseta Sýrlands til ábyrgðar, Rússar og Íranar yrðu að taka á þessum bandamanni sínum. Tillerson sagði:
„Það er ljóst að svona vinnur Bashar al-Assad: af hrottalegum, hömlulausum skepnuskap. Þeir sem verja hann og styðja, þar á meðal Rússar og Íranir, ættu ekki að láta blekkjast af Assad eða tilburðum hans.“