
Rússneska varnarmálaráðuneytið hefur ákveðið að efla 20. sameinaða heraflann á Vestur-herstjórnarsvæði Rússlands. Heimildarmenn TASS-fréttastofunnar í rússneska herforingjaráðinu segja að unnið sé að því að endurskipuleggja landherinn á svæðinu og auka þar mannafla með flutningi hermanna frá öðrum herstjórnarsvæðum.
Heimildarmaður TASS segir í frétt sem birtist fimmtudaginn 13. ágúst að ætlunin sé að efla vélaherdeildir á Vestur-herstjórnarsvæðinu sem snýr að Finnlandi, Eystrasaltsríkjunum og Póllandi. Einnig verði lögð áhersla á stórskotalið, skotpalla fyrir flugskeyti og njósnasveitir. Með þessu verður árásargeta hersins á þessu svæði verulega aukin.
Stefnt er að því að þessari umfangsmiklu breytingu verði lokið 1. desember 2015.
Vestur-herstjórnarsvæðið undir nýrri sameinaðri herstjórn kom til sögunnar árið 2010 þegar yfirstjórn herstjórnarsvæða Moskvu og Leníngrad og flotastjórnir Norðurflotans og Eystrasaltsflotans voru sameinaðar undir einni stjórn í St. Pétursborg. Á herstjórnarsvæðinu hefur 6. Leníngrad-flugherinn og loftvarnaherinn verið stofnaður. Lofthelgin sem flugherinn gætir nær yfir 2 milljónir ferkílómetra og 3.000 km löng landamæri.
Ætlunin er að 1. desember verði nýr skriðdrekaher orðinn hluti af Vestur-herstjórnarsvæðinu (500 skriðdrekar). Annar slíkur her verður stofnaður skammt frá Moskvu í desember.
Þá segir TASS að komið verði á fót hraðliði fallhlífarhermanna. Liðið á að geta starfað sjálfstætt eða í tengslum við landherinn. Við þetta fjölgar í fallhlífarliðinu úr 45.000 mönnum í 60.000 menn.