Home / Fréttir / Rússar ákærðir fyrir undirróður í Bandaríkjunum – blaður segir Lavrov

Rússar ákærðir fyrir undirróður í Bandaríkjunum – blaður segir Lavrov

Rod. J. Rosenstein, varadómsmálaráðherra.
Rod. J. Rosenstein, varadómsmálaráðherra.

Bandaríska dómsmálaráðuneytið birti föstudaginn 16. febrúar ákæru á hendur 13 Rússum og þremur fyrirtækjum fyrir að hafa beitt þaulhugsuðum aðferðum til að hafa áhrif á bandarísku kosningabaráttuna árið 2016 og til stuðnings við baráttu Donalds Trumps. Leiðin lá frá skrifstofu í St. Pétursborg í Rússlandi til samfélagsmiðla í Bandaríkjunum og þaðan inn í baráttuna um atkvæðin í þeim ríkjum þar sem úrslit þóttu tvísýnust.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, hafnaði ákærunni sem „blaðri“ og „hugarburði“ á öryggisráðstefnunni í München laugardaginn 17. febrúar. „Á meðan við sjáum ekki staðreyndirnar er allt annað blaður,“ sagði utanríkisráðherrann.

Sergeij Kisljak, fyrrverandi sendiherra Rússa í Washington, sat í pallborði á München-öryggisráðstefnunni og hafnaði því að hann eða starfsmenn hans hefðu staðið að nokkru slíku í sinni tíð í sendiráðinu, á árinu 2016.

HR McMaster, þjóðaröryggisráðgjafi Trumps, er einnig í München. Hann sagði  37 blaðsíðna ákæruskjalið taka af allan vafa um að ásakanir í garð Rússa um afskipti af kosningunum væru sannar. Lagðar hefðu verið fram „óhrekjanlegar“ sannanir um athafnir Rússa. Þá hefði rannsóknin sýnt að bandarísk stjórnvöld öðluðust sífellt meiri hæfni til að rekja upphaf njósna og undirróðurs. Hann sagði að Rússar ættu að hugsa sinn gang því að þeir hefðu ekki erindi sem erfiði.

Rússar stálu neteinkennum bandarískra ríkisborgara, létust vera virkir þátttakendur í kosningabaráttunni og notuðu hitamál eins og útlendingamál, trúmál og kynþáttamál til að hafa áhrif á baráttu þar sem hart var tekist á um menn og málefni eins og segir í ákæruskjalinu.

Sumir Rússanna voru einnig í sambandi við „grandalausa einstaklinga sem tengdust baráttu Trumps“ segir í réttarskjölunum.

„Í ákærunni eru færð rök að því að rússnesku samsæriamennirnir vilji skapa sundrung innan Bandaríkjanna og grafa undan trú almennings á lýðræðinu,“ sagði Rod. J. Rosenstein, varadómsmálaráðherra með ábyrgð á rannsókninni, á stuttum blaðamannafundi þar sem hann kynnti ákæruna, „Við megum ekki leyfa að þeim takist þetta.“

Í The New York Times segir að í ákæruskjalinu sé að finna rökstudda höfnun á málflutningi Trumps sem hafi sáð efasemdum um að Rússar hafi haft afskipti af kosningabaráttunni og kallað spurningar um íhlutun þeirra „falsfréttir“.

Dómsmálaráðuneytið sagði að rannsókninni undir stjórn Muellers væri ekki lokið. Í ákærunni er ekki fjallað um árásir á tölvupóstkerfi demókrata eða hvort Trump reyndi að bregða fæti fyrir rannsókn alríkislögreglunnar, FBI, á afskiptum Rússa.

Aðgerð Rússa hófst fyrir fjórum árum, nokkru áður en Trump bauð sig fram til forseta. Forsetinn var fljótur að nýta sér þessa staðreynd: „Rússar hófu and-bandaríska baráttu sína árið 2014, löngu áður en ég tilkynnti að ég byði mig fram sem forseta,“ sagði Trump á Twitter. „Engin áhrif á úrslit kosninganna. Kosningastjórn Trumps gerði ekkert rangt – ekkert leynimakk!“

Í The New York Times segir laugardaginn 17. febrúar að Trump minnist ekki á að niðurstaða rannsakenda sé að á árinu 2016 hafi Rússar „stutt forsetabaráttu þá frambjóðanda Donalds J. Trumps“ og skaðað andstæðing hans, Hillary Clinton. Í réttarskjölunum segir að Rússar hafi frá skrifstofu í St. Pétursborg stundað „upplýsingahernað gegn Bandaríkjunum“.

Í The New York Times er minnt á að í rannsókn sinni hafi Mueller og menn hans safnað miklum sönnunargögnum um tengsl milli Rússa og kosningastjórnar Trumps: Elsti sonur Trumps hafi hitt rússneskan lögfræðing í von um að fá pólitískan óhróður um Hillary Clinton; einn ráðgjafa Trumps viðurkenndi að honum hefði verið sagt fyrirfram að ætlunin væri að brjótast inn í tölvupóstkerfi demókrata; annar ráðgjafi var í sambandi við Twitter-reikning rússneskra tölvuþrjóta; alríkisdómari komst að því að þriðji ráðgjafinn væri hugsanlega ólöglegur útsendari Rússa. Kosningastjórn Trumps neitaði hvað eftir ranglega að hún hefði átt samskipti við Rússa, segir blaðið.

Robert S. Litt, fyrrverandi ráðgjafi yfirmanns bandarísku Þjóðaröryggisstofnunarinnar, sagði að með því að birta ákæruskjalið vildi Mueller „binda enda á umræður um hvort Rússar hefðu skipt sér að kosningunum eða ekki“.

Rússarnir eru sakaðir um að starfa fyrir skrifstofu sem kallar sig

Internet Research Agency, Netrannsóknastofuna, og ræður yfir nokkrum milljónum dollara og var ætlað að ná til milljóna Bandaríkjamanna. Eru starfsmenn stofunnar sakaðir um að hafa lagt stund á víðtæk svik gegn bandarískum stjórnvöldum og um að stofna til samsæris til að hindra framkvæmd alríkislaga.

Enginn Rússanna hefur verið handtekinn og almennt framelja rússnesk yfirvöld ríkisborgara sína ekki til Bandaríkjanna. Bandaríska ákæruvaldið birtir nöfn manna í réttarskjölum til að gera hlut þeirra sem verstan og draga úr líkum á að þeir geti endurtekið leikinn. Fari þessir menn út fyrir Rússland eiga þeir á hættu að verða handteknir og framseldir til Bandaríkjanna.

Rússneskir tölvusérfræðingar sátu á dag- og næturvöktum við að stofna hundruð reikninga á samfélagsmiðlum og með tímanum tókst þeim að ná í hundruð þúsundir fylgjenda á netinu. Þeir þóttust vera kristnir aðgerðasinnar, andstæðingar innflytjenda og stuðningsmenn baráttuhreyfinga blökkumanna. Meðal annars var stofnaður reikningur í nafni Tennessee Republican Party og dró hann að sögn saksóknara að sér hundruð þúsunda fylgjenda.

Netrannsóknastofan í St. Pétursborg var deildaskipt, sumir sinntu myndvinnslu, aðrir gagnagreiningu og upplýsingatækni.

Eftir að flett hafði verið ofan af starfseminni sagði einn Rússana, Irina Viktorovna Kaverzina, á netinu: „Ég gerði allar þessar myndir og bréf og Bandaríkjamenn trúðu að einhverjir úr þeirra hópi hefðu skrifað þetta.“

Verkefni rússnesku tölvuþrjótanna eða tröllanna var að grafa undan Hillary Clinton með því að styðja Bernie Sanders, andstæðing hennar í prófkjörinu meðal demókrata. Í skjölum rússnesku stofunnar var að finna skýr fyrirmæli: „Notið hvert tækifæri til að gagnrýna Hillary og restina (nema Sanders og Trump – við styðjum þá).“

Í réttarskjölunum eru tilgreindar 13 rafrænar auglýsingar kostaðar af Rússum. Í þeim öllum er vegið að Hillary Clinton eða Trump hampað. „Hillary er Satan og glæpir hennar og lygar hafa sannað hvílíkt illmenni hún er,“ segir í einni auglýsingunni.

Þegar líklegt þótti sumarið 2016 að Hillary Clinton ynni afgerandi kosningasigur ýttu rússnesku nettröllin undir þá skoðun að demókratar stunduðu kosningasvik. Það var í anda þess boðskapar Trumps að hann væri fórnarlamb spillts stjórnmálakerfis, segir The New York Times.

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …