Þýska fréttastofan DW segir að Frakkar og Þjóðverjar hafi knúið í gegn samkomulag sem geri Rússum kleift að taka að nýju fullan þátt í störfum Evrópuráðsins í Strassborg. Eftir innlimun Krímskaga í Rússland voru rússneskir þingmenn á Evrópuráðsþinginu sviptir atkvæðisrétti sem varð til þess að þeir hættu að sækja þingfundi.
Utanríkisráðherrar 47 aðildarríkja Evrópuráðsins sátu 16. og 17. maí fund í Helsinki og þar var þetta samkomulag við Rússa staðfest. Rússar sögðust reiðubúnir til að gera upp skuld sína við ráðið enda hefðu þeir engan áhuga á að yfirgefa það.
Utanríkisráðherrarnir samþykktu föstudaginn 17. maí ályktun um „að öll aðildarríkin skuli hafa rétt til þátttöku á jafnréttisgrundvelli“ í Evrópuráðinu. Þá sagði einnig að aðildarríkin fögnuðu ef öll aðildarríkin ættu sendinefndir á næsta fundi Evrópuráðsþingsins í júní. Ráðherrar sex ríkja greiddu atkvæði gegn ályktuninni.
„Við viljum ekki yfirgefa Evrópuráðið eins og einhverjir hafa hvíslað,“ sagði Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa. „Við skjótum okkur ekki undan skuldbindingum okkar, þar með ekki þeim fjárhagslegu.“
Rússar hættu árið 2017 að greiða árgjald sitt til Evrópuráðsins sem leiddi til þess að 33 milljóna evra gat myndaðist í fjárlögum þess. Hefðu Rússar ekki ákveðið að gera upp skuldir sínar hefði mátt reka þá úr ráðinu í næsta mánuði.
Ákvörðun ráðherranna tryggir að rússneskir borgarar geta áfram skotið málum til Mannréttindadómstóls Evrópu. Rúmlega 20% mála fyrir dómstólnum í fyrra voru frá rússneskum ríkisborgurum.