
Endanlega hefur verið hætt við afhendingu á tveimur þyrlumóðurskipum af Mistral-gerð frá Frökkum til Rússa og viðskiptum fyrir 1,5 milljarð evra hefur verið rift. Á rússnesku vefsíðunni Sputnik segir föstudaginn 19. júní að í stað frönsku skipanna ætli Rússar að hanna og smíða eigin þyrlumóðurskip
Í fréttinni segir að í rússneska Krijlov-rannsóknasetrinu hafi menn unnið að gerð áætlunar um smíði rússnesks þyrlumóðurskips í stað Mistral-skipanna, Er þetta haft eftir háttsettum manni innan rússneska hergagnaiðnaðarins.
Um er að ræða 24.000 tonna skip sem kallast Lavina. Það yrði stærra en skip af Mistral-gerð en þau eru 21.000 tonn. Kom þetta fram á hergagnasýningu sem nú er opin skammt utan við Moskvu.
Nýja herskipið á að geta sigl 5.000 km á 18 hnúta hraða án þess að fá þjónustu í höfn, hámarkshraði skipsins yrðu 22 hnútar. Áhöfn yrði 320 og auk þess gætu 500 hermenn og 50 brynvarin ökutæki verið um borð.
Frakkar hættu við að afhenda Rússum Mistral-skipin vegna íhlutunar þeirra í málefni Úkraínu. Rússar fengu hins vegar ýmsar tæknilegar upplýsingar frá Frökkum og þar með leiðbeiningu um hvernig haga bæri smíða skipa af þessu tagi.
Þyrlumóðurskipum er ætlað að gegna hlutverki við landgöngu hers á fjarlægum slóðum. Að rússneski herinn öðlist getu til slíkra aðgerða er nýmæli. Hve fjarri Rússlandi gripið yrði til slíkra hernaðaraðgerða ræðst af átökum hverju sinni. Um þessar mundir standa yfir flotaæfingar 17 ríkja á Eystrasalti og þar er meðal annars æft hvernig verja skuli Svíþjóð gegn landgönguliðum.