Home / Fréttir / Rússar ætla ekki að hervæða Norðurskautsráðið

Rússar ætla ekki að hervæða Norðurskautsráðið

Nikolai Korstjunov, norðurslóða-sendiherra Rússlands.

Nikolai Korstjunov, norðurslóða-sendiherra Rússlands, segir að Rússar ætli ekki að ræða um hervæðingu norðurslóða í formannssæti í Norðurskautsráðinu en þeir muni beita sér fyrir að herráðsformenn aðildarríkjanna hefji árlega fundi að nýju.

Rússar taka við formennsku í Norðurskautsráðinu af Íslendingum á fundi í Reykjavík fimmtudaginn 20. maí.

Nikolai Korstjunov ræddi af þessu tilefni við rússneska blaðið Kommersant og lýsti meginatriðum í stefnu Rússa næstu tvö formennskuár þeirra í ráðinu. Þar ber hæst loftslagsbreytingar, líffræðilegur fjölbreytileiki, auðlindanýting og Norðursiglingaleiðin.

Sendiherrann segir að ekki verði rætt um hernaðarleg málefni enda séu þau utan verksviðs Norðurskautsráðsins samkvæmt Ottawa-yfirlýsingunni, stofnskrá þess frá 1996. Jafnframt gangi Rússar að því sem vísu að engin vandamál á norðurslóðum krefjist hernaðarlegra lausna.

Hann segir hins vegar að boðað verði að nýju til árlegra funda herráðsforingja aðildarlandanna en þeir hafa ekki verið haldnir síðan 2014 þegar Rússar réðust á Úkraínu. Með fundunum verði unnt að efla traust og öryggi á norðurslóðum.

Korstjunov dregur enga dul á að staðan í öryggismálum verði sífellt erfiðari á norðurslóðum og á því eigi vestræn ríki sök.

Hann bendir á að æfingum undir merkjum NATO fjölgi í norðri og nefnir sérstaklega ferðir bandarískra og breskra herskipa inn á Barentshaf í maí 2020.

Á hinn bóginn hervæðist Rússar aðeins í því skyni að skapa öryggi og stöðugleika fyrir helstu stórframkvæmdir sínar á svæðinu. Hervæðingunni sé ekki beint gegn neinni þjóð og hún brjóti ekki í bága við neina alþjóðasamninga.

Á norsku vefsíðunni Barents Observer segir að þessi ummæli sendiherrans séu ekki í samræmi við það sem haft sé eftir fulltrúum í öryggisráði Rússlands sem hafi hvað eftir annað gefið til kynna að undir formennsku Rússa verð hermál á dagskrá funda Norðurskautsráðsins.

Dmitríj Medvedev, varaformaður öryggisráðsins, sagði í október 2020 að starf samstarfsstofnana ríkisstjórna yrði einnig að endurspegla „nýjan raunveruleika“ á norðurslóðasvæðinu. Hann lagði jafnframt áherslu á að Norðurskautsráðið væri ein helsta samstarfsstofnunin í norðri.

Öryggisráð Rússlands stofnaði í ágúst nýja norðurslóðanefnd innan sinna vébanda til að „skilgreina alþjóðlega og félagslega og efnahagslega stöðu á norðurslóðum“ – þar á meðal stjórnmál og hermál.

Þá sýnir Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússa, áhuga á væntanlegri formennsku Rússa. Hann flutti nýlega ræðu á fundi Landfræðifélags Rússlands og sagði að formennskan í Norðurskautsráðinu gæfi Rússum tækifæri til að samræma og hafa frumkvæði að mörgum svæðisbundnum verkefnum. Varnarmálaráðherrann er forseti Landfræðifélagsins.

Þá bendir Barents Observer á að Rússar líti einnig á Norðurskautsráðið sem hugsanlegan vettvang til að brúa bil gagnvart Bandaríkjamönnum.

Júri Averjanov, fyrsti vararitari öryggisráðs Rússlands, sagði í samtali við RIA Novosti-fréttastofuna að norðurslóðamálefni væru meðal fárra málaflokka þar sem tækist að ná árangri við að koma á gagnlegum samtölum Rússa og Bandaríkjamanna“. Ástæðan væri að „raunhæf viðfangsefni“ væru þar á dagskrá eins og samhæfing við landhelgisgæslu, stjórn fiskveiða og siglingaöryggi.

Averjanov var ekki eins jákvæður þegar hann ræddi um samtök vestrænna umhverfissinna sem oft mótmæltu aðgerðum Rússa harðlega þótt þau héldu aftur af sér vegna sambærilegra verkefna utan lögsögu Rússa. Taldi hann að vestræn stjórnvöld beittu oft umhverfismálum í þágu „þrýstiaðgerða, mismununar og óviðeigandi samkeppni“. Nefndi hann sem dæmi að í nafni fiskverndar væri rússneskum skipum bannað að stunda veiðar á fiskverndarsvæðinu við Svalbarða.

Þá telur Averjanov varasamt frá öryggissjónarmiði að bjóða erlendum fyrirtækjum þátttöku í rússneskum stórverkefnum á norðurslóðum. Leggja verði ríka áherslu á að grandskoða alla öryggisþætti komi til álita að bjóða erlendum fjárfestum aðild að slíkum verkefnum.

Allir utanríkisráðherrar Norðurskautsríkjanna átta boða þátttöku í fundinum í Reykjavík.

Rússar ætla að skipuleggja 88 viðburði í tveggja ára formennskutíð sinni, 50 þeirra verði á vegum opinberra aðila en 38 undir handarjaðri þeirra. Alls er stefnt að þátttöku 12.500 manna í opinberu viðburðunum 50. Í Rússlandi taka 17 stjórnarstofnanir þátt í að skipuleggja viðburðina, ásamt 11 alríkisstofnunum, 12 félagasamtökum og háskólastofnunum og þremur fyrirtækjum: Rosatom, Sovcomflot og Nornickel.

 

Heimild: Barents Observer.

 

 

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …