Home / Fréttir / Rússar æfa árásarflug við bandarískan tundurspilli á Eystrasalti

Rússar æfa árásarflug við bandarískan tundurspilli á Eystrasalti

Myndin er tekin um borð í Donald Cook og sýnir rússneska orrustuþotu í árásarflugi.
Myndin er tekin um borð í Donald Cook og sýnir rússneska orrustuþotu í árásarflugi.

Tvær rússneskar orrustuþotur æfðu árásarflug skammt frá bandaríska tundurspillinum Donald Cook á Eystrasalti þriðjudaginn 12. apríl. Ekki sáust vopn á vélunum. Bandarískur embættismaður segir atvikið sýna meiri árásargirni en flest annað á síðari tímum.

Rússar segjast hafa hafa farið í einu og öllu að settum öryggisreglum. Bandaríska herskipið hafi verið nærri rússneskri flotastöð. Þotunum hafi verið snúið til baka eftir að flugmennirnir sáu skipið, þeir hafi fylgt öllum alþjóðareglum um öryggi og flug í  lofthelgi yfir úthafinu. Hugsanlegt er að flug rússnesku vélanna hafi brotið gegn reglum frá 1970 sem settar voru til að draga úr líkum á hættulegum atvikum á hafi úti. Ekki er vitað hvort Bandaríkjamenn hyggist kæra á grundvelli reglnanna.

Um var að ræða Sukhoi SU-24 herþotur sem flugu einnig skammt frá skipinu mánudaginn 11. apríl. Seinni daginn tóku vélarnar alls 11 dýfur í átt að tundurspillinum og fóru svo nærri yfirborði sjávar að það gáraðist.

Þá var rússnesk herþyrla af gerðinn KA-27 Helix einnig á sveimi og fór sjö sinnum í kringum Donald Cook til myndatöku. Skipið var 70 sjómílur frá rússnesku hólmlendunni Kaliningrad sem er við Eystrasaltið milli Póllands og Litháens.

„Þeir reyndu að ná sambandi við þær [rússnesku þoturnar] með fjarskiptum en þeim var ekki svarað,“ sagði embættismaðurinn við Reuters-fréttastofuna og óskaði nafnleyndar. Hann benti á að bandaríska herskipið hefði verið á úthafinu.

Bandaríski tundurspillirinn Donald Cook.
Bandaríski tundurspillirinn Donald Cook.

Donald Cook fór frá Gdynia í Póllandi mánudaginn 11. apríl með pólska þyrlu um borð. Var skipið notað til æfinga fyrir flugmenn þyrlunnar.

Fyrra atvikið varð mánudaginn 11. apríl þegar tvær SU-24 þotur steyptu sér um 20 sinnum niður og fram hjá Donald Cook í um 1000 m fjarlægð frá skipinu og í um 30 m hæð yfir sjó. Í einu tilviki var rússnesk þota aðeins 9 m yfir sjó.

Embættismaður bandaríska utanríkisráðuneytisins sagði að skipherrann á Donald Cook teldi að atvikið þriðjudaginn 12. apríl hefði verið „hættulegt og ófagmannlegt“. Jafnframt benti embættismaðurinn á formleg rannsókn málsims hefði ekki verið gerð.

Heimild: Thomson Reuters, BBC

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …