Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, boðaði haustið 2022 utanríkríkisráðherra sjö aðildarríkja Norðurskautsráðsins til fundar í Salekhard í Síberíu vorið 2023. Þá verða tvö ár liðin frá því að Rússar tóku við formennsku í ráðinu af Íslendingum á fundi í Hörpu vorið 2021.
Rússar sitja líklega einir þjóða Norðurskautsráðsins fundinn í Salekhard. Eftir innrás Rússa í Úkraínu 24. febrúar 2022 gerðu önnur aðildarríki ráðsins hlé á samstarfinu við Rússa. Enginn veit hvenær því lýkur en Norðmenn taka við formennskunni af Rússum vorið 2023.
Þriðjudaginn 31. janúar var árleg Arctic Frontiers ráðstefnan sett í Tromsø, Norður-Noregi. Í setningarræðunni sagði Anniken Huitfeldt, utanríkisráðherra Noregs, að ekki væri unnt að eiga eðlilegt pólitískt samstarf við núverandi stjórnvöld í Rússlandi. Það kemur í hennar hlut að taka við formennsku í Norðurskautsráðinu af Sergeij Lavrov.
Haraldur Indriðason, fréttamaður ríkisútvarpsins, er á Arctic Frontiers ráðstefnunni í Tromsø í Norður-Noregi og birtist þessi frétt á ruv.is miðvikudaginn 1. febrúar:
Samstarf við Rússa í norðurslóðamálum er útilokað eins og staðan er núna, en finna þarf leið til að fá áfram vísindagögn þaðan. Þetta álit var gegnumgangandi í pallborði sem utanríkisráðherrar Íslands, Noregs og Svíþjóðar tóku þátt í á ráðstefnunni Arctic Frontiers í Tromsö í Noregi.
Þetta þýðir þó ekki að Rússar séu alveg útilokaðir frá norðurslóðasamstarfi, þó engir Rússar séu staddir á ráðstefnunni hafa nokkrir fengið að halda fyrirlestur í gegnum netið. Fjarvera Rússa er þó mikið umræðuefni og líka fyrirhuguð aðild Svía og Finna að NATO.
„Við höfum gert það sem við teljum okkur þurfa að gera og nú er komið að þinginu að hefja inngönguferlið. Það verður vonandi sem fyrst,“ sagði Tobias Billström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, í viðtali við Hallgrím Indriðason fréttamanna í Tromsö í gær [31. janúar]. Og vonir standa til að umsókn Svía og Finna verði afgreidd á NATO-ráðstefnu í Vilnius í Litháen í júlí.
„Ég vil ekki vera með getgátur um nákvæman tímapunkt en það stendur nú upp á Tyrki en ekki Svía því við höfum gert allt sem okkur ber.“
Anniken Huitfeldt, utanríkisráðherra Noregs, sagði ljóst að ekki væri hægt að halda áfram að starfa með Rússum í Norðurslóðasamstarfinu.
„Nú er formennskan á okkar forræði og verkefnin á Norðurslóðum hverfa ekki; loftslagsmálin, niðurbrot náttúrunnar og nauðsyn þess að fólk geti áfram búið á Norðurslóðum. En við getum ekki starfað með Rússum á sama hátt og áður,“ sagði Huitfeldt við Hallgrím.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tók í sama streng.
„Ég er hjartanlega sammála og það er algjör samstaða um þetta atriði meðal hinna sjö Norðurslóðaríkja. Þarna er um að ræða Norðurslóðaríki sem ákveður það hjá sjálfu sér að brjóta alþjóðalög. Þetta samstarf gengur út á að alþjóðalög séu virt og við nýtum öll tækifæri til að einangra Rússa og senda skýr skilaboð. Við stöndum með okkar vina- og bandalagsþjóðum í því og höfum gert frá fyrsta degi,“ sagði Þórdís Kolbrún í beinni útsendingu frá Tromsö í kvöldfréttum í gær [31. janúar].“