Home / Fréttir / Rússar á herfæfingum við Lettland og Noreg

Rússar á herfæfingum við Lettland og Noreg

Rússneskur skriðdreki á norðurslóðum.
Rússneskur skriðdreki á norðurslóðum.

 

Rússar hófu æfingar með flugskeytum á Eystrasalti miðvikudaginn 4. apríl. Stjórnvöld í Lettlandi neyddust til að loka hluta af lofthelgi sinni. Sama dag hófst landhersæfing Rússa við sameiginleg landamæri þeirra og Norðmanna í norðri.

Sprengjur eru sendar á loft með flugskeytum frá Eystrasaltsflota Rússa með heimahöfn í Kaliningrad, hólmlendunni milli Litháens og Póllands. Sprengjunum er ætlað að granda skotmörkum í lofti og á sjó.

„Þeir eru að sýna vald sitt,“ sagði Maris Kucinskis, forsætisráðherra Lettlands, við Reuters-fréttastofuna. „Það er erfitt að skilja að þetta geti gerst svona nærri landi okkar.“

Æfingarnar fara fram innan efnahagslögsögu Lettlands en utan 12 mílna landhelgi landsins. Þá eru skipin einnig vestan við efnahagslögsöguna.

Umferð um flugstjórnarsvæði Lettlands verður takmörkuð í þrjá daga og sænsk yfirvöld hafa einnig sent viðvörun til borgaralegra flugvéla og varað stjórnendur þeirra við töfum á sænska flugstjórnarsvæðinu.

Lettar segja að Rússar hafi aldrei fyrr efnt til heræfinga svo nærri yfirráðasvæði þeirra. Kucinskis vakti athygli á að til æfinganna væri stofnað skömmu eftir brottrekstur margra rússneskra sendiráðsmanna til andsvara við eiturefnaárásinni í Salisbury.

Lettneskir embættismenn segja að Rússar brjóti engar alþjóðareglur og þeir eigi rétt á að stunda æfingar. Hermálafulltrúi rússneska sendiráðsins í Ríga, höfuðborg Lettlands, var kallaður í lettneska varnarmálaráðuneytið þar sem honum voru kynntar áhyggjur ráðuneytisins og hann spurður um tímasetningu æfinganna. Rússar segjast vilja kanna stöðu herafla síns að loknum vetri.

Í fréttatilkynningu frá rússneska Norðurflotanum segir að heræfing Norðurskauts-stórfylkisins í Petsamo-dal og fjalllendi norður af heimastöð stórfylkisins á Kóla-skaga nái til rúmlega 1.000 hermanna og nokkur hundruð hergagna.

Markmið æfingarinnar er að hrekja til baka lið sem ráðist gefur inn fyrir landamæri Rússlands. Meginherafli Rússa verður í um 10 km fjarlægð frá landamærum Noregs.

 

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …