Home / Fréttir / Rússa dreymir um íslausa úthafshöfn við Indiga

Rússa dreymir um íslausa úthafshöfn við Indiga

colored-belkomr-railway-map

Sagt var frá því á norsku vefsíðunni BarentsObserver fimmtudaginn 27. maí að hugmyndir væru í Rússlandi að leggja lestarteina til íslausrar hafnar í nágrenni bæjarins Indiga sem er við Barentshaf fyrir norðaustan Arkhangelsk, það er fyrir austan Kólaskaga, Múrmansk og Hvítahaf.

Segir í fréttinni að kynnt hafi verið áform um 500 km langa brautarteina frá bænum Karpogoríi í nágrenni Arkhangelsk til Indiga. Lagning teinanna yrði hluti mun viðameiri samgöngubóta Rússa á þessum norðlægu slóðum.

Þetta nýja brautakerfi tengdist Belkomur-brautinni sem ætlunin er að liggi frá Solilkamsk í Úralhérði um Sjiktijvkar í Komi-lýðveldinu til Arkhangelsk við Hvítahaf. Markmiðið er að stytta leiðina frá Úral og Síberíu til Arkhangelsk um 800 km.

Rússneska TASS-fréttastofan segir að nú þegar hafi 5 milljónum dollara verið varið til að undirbúa úthafs-heilsárshöfn í Indiga. Þar eigi að verða unnt að afgreiða 80 til 200 milljón lestir af varningi á ári.

Barentshafið er íslaust og frá Indiga mætti flytja kol, timbur og pappír, áburð og efnavörur. Varningurinn færi á heimsmarkað og kæmi á nýju lestarteinunum frá Kazakhstan, Kyrgyzstan og Kína. Gangi áformin eftir yrði Indiga-höfnin fyrsta meiriháttar tenging Asíu við norðurhöf.

Belkomur-járnbrautinni er raunar ætlað að auka umsvif í nýju úthafshöfninni í Arkhangelsk en Kínverjar eru meðal fjárfesta í henni.

Allt ræðst þetta af járnbrautarframkvæmdum í Kyrgyzstan. Þar er unnið að framkvæmd áforma um að leggja braut þvert í gegnum landi frá Kína til nágrannalanda.

Ritstjóri BarentsObserver ræðir við Arild Moe, rannsóknarprófessor við Fridtjof Nansen-stofnunina í Osló. Hann hefur um langt árabil rannsakað fjárfestingar Rússa í norðri og skipaferðir á Norðurleiðinni fyrir norðan Rússland.

Hann segir að árum saman hafi verið rætt um Belkomur-járnbrautina frá Úral til Arkhangelsk án þess að mikið hafi orðið úr framkvæmdum. Þá minnir hann á að á sínum tíma hafi verið rætt um Indiga sem höfn fyrir fljótandi jarðgas (LNG) en það hafi orðið að engu enda væri um mikla fjárfestingu að ræða.

„Það liggur ekki í fljótu bragði í augum uppi hvers vegna það borgaði sig að senda vörur frá Mið-Asíu eða Kína um norðurhöf til markaða á Vesturlöndum,“ segir Arild Moe í lok frásagnar BarentsObserver.

 

 

 

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …