Home / Fréttir / Rúmenska ríkisstjórnin beitir sér í Brussel gegn saksóknara

Rúmenska ríkisstjórnin beitir sér í Brussel gegn saksóknara

Laura Codruta Koevesi.
Laura Codruta Koevesi.

Fyrrverandi aðalsaksóknari Rúmeníu gegn spillingu á undir högg að sækja í heimalandi sínu. Stjórnvöld vilja hindra að Laura Codruta Koevesi verði ráðin í nýtt starf á vegum ESB í Brussel, sem aðalsaksóknari á vegum sambandsins gegn fjármálamisferli.

Laura Codruta Koevesi var fimmtudaginn 7. mars kölluð til yfirheyrslu í Búkarest hjá nýrri rúmenskri stofnun sem rannsakar hugsanleg afbrot saksóknara og annarra réttargæslumanna. Heima fyrir er hún sökuð um valdníðslu, mútur og rangan vitnisburð.

Fyrirkallið kemur sama dag og fulltrúar ESB-þingsins og einstakra ESB-ríkja hefja viðræður í sinn hóp um hver skuli verða í forsvari fyrir nýju evrópsku saksóknaraskrifstofunni. Gagnrýnendur rúmenskra stjórnvalda segja að þau hafi kallað Koevesi til yfirheyrslu í von um að veikja stöðu hennar í Brussel.

Koevesi hefur einu sinni áður sætt yfirheyrslu vegna þessara ásakana. Það var 15. febrúar sl. sama dag og hún átti að vera í Brussel og leggja fram umsókn sína um embætti ESB-saksóknarans.

Koevesi var í forstöðu fyrir gagnspillingar-stofnun Rúmeníu (DNA) í fimm ár þar til í fyrra þegar vinstri stjórn landsins rak hana. Margir mátu brottrekstur hennar sem andsvar yfirvalda vegna þess árangurs sem DNA hafði náð undir hennar stjórn við að upplýsa og uppræta spillingu á æðri stöðum án tillits til stjórnmálaflokka. Rúmenía er eitt spilltasta land ESB og kunnu ráðamenn ESB að meta vinnubrögð og árangur hennar.

Þá segja þeir sem gagnrýna brottrekstur hennar að yfirvöld vilji hindra að DNA beiti sér fyrir að fleiri stjórnmálamönnum eða háttsettum embættismönnum stjórnarinnar verði stefnt fyrir rétt vegna spillingar.

Í þessum hópi er Liviu Dragnera, forseti neðri deildar rúmenska þingsins og leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins.

Dragnera hefur þegar verið dæmdur fyrir valdníðslu eftir ákæru frá DNA og nú er annað mál gegn honum á döfinni.

Rúmenar fara nú með forsæti í ráðherraráði ESB. Ríkisstjórn Rúmeníu leggst eindregið gegn framboði Koevesi í nýtt embætti ESB-saksóknarans.

Þegar hún kom fyrir nefnd ESB-þingsins 26. febrúar gerðu nokkrir þingmenn hróp að Koevesi, sökuðu hana um valdníðslu og lygar. Þeim tókst þó ekki að útiloka hana sem umsækjanda um ESB-saksóknaraembættið.

Fimmtudaginn 7. mars var efnt til fyrsta fundar fulltrúa ESB-þingsins annars vegar og ráðherraráðs ESB hins vegar um hvort velja eigi Koevesi eða franska saksóknarann François Bohnert sem ESB-saksóknara. Ráðherraráðið styður Bohnert.

Sama dag og fundurinn er haldinn gerist sá óvenjulegi atburður að Tudorel Toader, dómsmálaráðherra Rúmeníu, birtir opið bréf í breska blaðinu The Financial Times þar sem hann sakar Koevesi um að beita „nauðung“ til að tryggja hátt hlutfall af refsidómum í spillingarmálum.

Toader hefur sætt þungri gagnrýni fyrir stöðugar árásir sínar á réttarríkið og tilraunir sínar til að umbylta spillingarlögjöfinni. Lauk þeim átökum með brottrekstri Koevesi.

 

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …