Home / Fréttir / Rúmeni nýr aðstoðarframkvæmndastjóri NATO

Rúmeni nýr aðstoðarframkvæmndastjóri NATO

 

Mircea Geoana
Mircea Geoana

Höfundur: Kristinn Valdimarsson

Innan NATO er  lykilembættum úthlutað til margra ríkja til að styrkja samstöðu innan bandalagsins..  Þar má nefna embætti yfirmanns herafla bandalagsins í Evrópu (e. Supreme Allied Commander Europe) og framkvæmdastjóra NATO.

Fyrra embættið fellur ávallt í skaut Bandaríkjamanns enda er bandaríski herinn langöflugasti heraflinn í NATO. Að Bandaríkjamaður gegni stöðunni sýnir líka á táknrænan hátt að Bandaríkjamenn hafa skuldbundið sig að taka þátt í vörnum Evrópu.

Framkvæmdastjóri bandalagsins kemur hins vegar frá einhverju Evrópuríki.  Oft frá minni ríkjum álfunnar. Tveir síðustu framkvæmdastjórar bandalagsins hafa verið Norðurlandabúar.

Fleiri lykilstöðum er skipt á milli aðildarríkjanna.  Má þar nefna stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra bandalagsins.  Fyrr í þessum mánuði tók nýr maður  við stöðunni, Mircea Geoana.  Forveri hans var Rose Gottemoeller.  Hún er bandarísk og hafði gegnt embættinu frá árinu 2016.

Rose Gottemoeller hefur langa reynslu af varnar- og öryggismálum og gegndi m.a. um árabil starfi aðstoðarutanríkisráðherra í Bandaríkjunum.  Hún var  aðalsamningamaður Bandaríkjanna í viðræðum þeirra við Rússa um fækkun kjarnorkuflauga sem fram fóru árið 2009.   Á ensku kallast samningurinn New Strategic Arms Reduction Treaty (New START) og er með því verið að minna á að ríkin tvö höfðu áður gert START samninga sín á milli.  Gottemoeller var fyrsta konan sem gegndi embætti aðstoðarframkvæmdastjóra NATO.

Skipan Mircea Geoana markar þau tímamót í sögu bandalagsins að hann er fyrsti maðurinn frá Austur-Evrópu sem gegnir stöðunni. Geoana var tilnefndur í embættið af Jens Stoltenberg framkvæmdastjóra bandalagsins í júlí 2019.  Þá sagði Stoltenberg að Geoana legði mikið upp úr tengslum Norður-Ameríku og Evrópu innan NATO, reynsla hans sem stjórnmálamanns og stjórnarerindreka mundi nýtast bandalaginu vel.

Mircea Geoana er fæddur í Rúmeníu 14. júlí 1958.  Hann hefur doktorsgráðu í hagfræði.  Hann var sendiherra Rúmeníu í Bandaríkjunum á seinni hluta tíunda áratugarins og árin 2000 – 2004 var hann utanríkisráðherra landsins.  Næstu tólf ár sat hann í öldungadeild rúmenska þingsins.  Geoana var formaður Jafnaðarmannaflokks Rúmeníu (e. Social Democratic Party), stærsta flokks landsins, á árunum 2005 – 2010.  Árið 2009 bauð hann sig fram til forseta landsins.  Lengi vel leit út fyrir að hann yrði kosinn og hélt hann sigurræðu að kvöldi kjördags en úrslitin urðu þó á annan veg – Geoana tapaði fyrir Traian Basescu, núverandi Rúmeníuforseta. Atvikið þótti minna á þegar ritstjóri bandaríska dagblaðsins Chicago Daily Tribune sló því upp á forsíðu 3. nóvember 1948 að Thomas Dewey frambjóðandi repúblíkana hefði sigrað Harry Truman í forsetakosningunum sem fram fóru daginn áður.  Það reyndist óskhyggja hjá blaðinu sem studdi Dewey.

Álitshnekkirinn sem þetta olli Mircea Geoana leiddi til brottreksturs hans úr Jafnaðarmannaflokknum. Hann náði hins vegar vopnum sínum og gegnir nú sem sagt lykilstöðu hjá NATO.

 

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …