Home / Fréttir / Röskun Kínverja á valdajafnvæginu hefur áhrif á norðurslóðum

Röskun Kínverja á valdajafnvæginu hefur áhrif á norðurslóðum

Fundur utanríkisráðherra Noregs og Kína.
Fundur utanríkisráðherra Noregs og Kína.

„Við verðum að treysta mun meira á eigin varnarmátt í fælingarskyni á næstu árum,“ segir Øystein Tunsjø við Norsku varnarmálastofnunina í viðtali við Hege Eilertsen í viðtali sem birtist á vefsíðunni High North News mánudaginn 25. september. „Norðurslóðir eru mjög neðarlega á forgangslista hjá Bandaríkjamönnum, mikilvægasta bandamanns Norðmanna,“ segir prófessorinn sem er sérfræðingur í Asíumálum.

„Kína, Kína, Kína,“ svarar Øystein Tunsjø þegar hann er beðinn um að skýra meginástæðuna fyrir breytingum á stöðu Norðmanna í utanríkis- og öryggismálum.

„Útrás Kínverja mikilvægasti, einstaki atburðurinn sem gerist í heiminum um þessar mundir. Það hefur aldrei gerst fyrr að ríki hafi orðið svo valdamikið á jafnskömmum tíma,“ segir prófessorinn.

Hann segir að af þessu leiði breytingu á hefðbundinni skoðun Evrópumanna um að álfa þeirra sé miðpunktur heimsins, í staðinn færist þungamiðjan til Asíu og til verði nýtt tví-pólakerfi milli Bandaríkjanna og Kína.

„Þetta kann að verða til þess að Bandaríkjamenn, mikilvægustu bandamenn Norðmanna, beini athygli sinni frá okkur að Kína,“ segir Øystein Tunsjø.

Prófessorinn segir að Bandaríkjamenn sjái enn tækifæri á norðurslóðum og í Norður-Evrópu þegar litið sé til upplýsingaöflunar en norðurvængurinn lækki enn á forgangslistanum.

Bandaríkjamenn muni draga úr athygli sinni á Norður-Atlantshaf og meginland Evrópu. Øystein Tunsjø telur að NATO muni einnig leggja minni áherslu á norðurvænginn. Það megi einfaldlega rekja til þess að helstu verkefnin verði í austri og suðri.

Øystein Tunsjø
Øystein Tunsjø

„Hver hugsar um hlöðuna þegar eldur er í íbúðarhúsinu?· spyr hann og minnir á að verkefni og ábyrgð NATO aukist til muna án þess að fjárveitingar hækki að sama skapi.

„NATO hefur hvorki mótað sér flotastefnu né styrkt herafla sinn til að hafa fælingarmátt á norðurslóðum,“ segir Tunsjø.

Hann telur að varla verði unnt að snúa við þróuninni sem leiðir til þess að þungamiðjan færist frá Evrópu til Asíu. Norðmenn megi ekki loka augunum fyrir því.

„Verg landsframleiðsla Kínverja og útgjöld þeirra til varnarmála eru hærri enn allra landanna í austurhluta Asíu til samans. Við getum síðan bætt bæði Rússum og Indverjum inn í dæmið og Kínverjar standa jafnfætis öllum þessum þjóðum,“ segir hann.

Þetta blasi einnig við þeim sem starfa í bandaríska varnarmálaráðuneytinu. Hvað segja greinendur og herfræðingar þar þegar þeir líta til Evrópu?

„Þeir sjá að sumar þjóðir í Evrópu óttast Rússa. Á hinn bóginn er verg landsframleiðsla (VLF) Rússa álíka mikil og Spánverja. VLF Þjóðverja einna er þrisvar sinnum stærri en Rússa. Ef Þjóðverjar létu aðeins svo lítið að verja 2% af VLF til varnarmála, sem er markmið NATO, mundu hernaðarútgjöld Þjóðverja einna verða hærri en Rússa,“ segir prófessorinn til skýringa.

Hann segir Norðmenn gjarnan gleyma því að Bandaríkjamenn þurfi að huga að gæslu öryggis bæði vestan við sig á Kyrrahafi og austan við sig á Atlantshafi.

„Við verðum að líta á valdajafnvægið. Af því ræðst til hvaða mótvægisaðgerða Bandaríkjamenn kjósa að grípa á næstu árum. Það verður í austurhluta Asíu til að skapa mótvægi við Kínverja. Þetta kallar á aukinn þrýsting á Evrópuþjóðirnar sem verða að gera meira í þágu eigin öryggis en þær hafa gert til þessa,“ segir hann.

Niðurstaða Tunsjøs er þessi: „Minnki viðvera Bandaríkjamanna verðum við að taka á okkur auknar skyldur eða búa við meiri áhættu.“

Um þessar mundir er unnið að gerð flotastefnu fyrir NATO. Í þeirri vinnu skerpist vitneskjan um það sem gerist á norðurslóðum, þar á meðal um endurnýjun rússneska flotans.

Staðan sé önnur núna en í kalda stríðinu þegar Evrópuríkin og Sovétríkin mynduðu andstæðar fylkingar og norðurvængurinn skipti miklu í heildarstefnunni sem mótuð var til varnar Evrópu.

Nú sé það sérstakt verkefni Norðmanna að beina athygli annarra Evrópuþjóða í norður. Sunnar í álfunni hafi ríkisstjórnir nóg á sinni könnu vegna ástandsins á Miðjarðarhafi. Í austurhluta Evrópu óttist þjóðirnar yfirgang af hálfu Rússa. Það séu því fáar þjóðir sem líti til norðurs.

Samskiptin við Rússa hafi gjörbreyst síðan þeir innlimuðu Krímskaga fyrir rúmum tveimur árum. Samskipti Evrópuþjóða við þá hafi minnkað. „Það eru ekki miklar líkur á átökum [við Rússa] en ég er þó þeirrar skoðunar að líkur á þeim aukist,“ segir Tunsjø.

Kínverjar og Rússar hafa tekið upp samstarf í öryggismálum. Tunsjø segir að líklega aukist þetta samstarf á næstu árum. „Þeir hafa ekki myndað samskonar bandalag og áður þekktist milli stórvelda. Það sýnir hins vegar svart á hvítu hvernig Kínverjar ætla að láta að sér kveða hernaðarlega um heim allan.“

Hann segir að við sem búum á norðurslóðum þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að til hernaðarátaka komi hér. Við verðum þess í stað vör við vandræði sem skapast vegna átaka annars staðar í heiminum og það ráðist einfaldlega af hnattstöðu Noregs ­– á norðurvæng NATO og sem nágranni Rússa.

Kæmi til átaka á milli Rússa og NATO kynni Noregur að „verða fyrir“ Rússum ef þeir gripu til varna fyrir Norðurflota sinn á Kóla-skaga og hafinu í átt til Íslands.

„Ímyndaðu þér að átök verði á Formósusundi og Bandaríkjastjórn sendi flugmóðurskip sín og fylgiskip þeirra þangað til þess að mæta Kínverjum. Hvað mundi gerast ef Rússar notuðu það sem afsökun fyrir að auka þrýsting á Eystrasaltsríkin og gripu til varnaraðgerða á norðurslóðum?

Þá kæmi upp staða þar sem Bandaríkjamenn yrðu að láta að sér kveða á þremur vígstöðvum samtímis og þá yrðu þeir einfaldlega að forgangsraða. Þetta eru afleiðingarnar,“ segir Øystein Tunsjø við Hege Eilertsen í viðtali sem birtist á vefsíðunni High North News mánudaginn 25. september.

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …