Home / Fréttir / Rosenstein sagður hafa beitt sér gegn Trump

Rosenstein sagður hafa beitt sér gegn Trump

Rod Rosenstein
Rod Rosenstein

Í fyrra eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafði rekið James Comey úr stöðu forstjóra alríkislögreglunnar, FBI, ræddi Rod Rosenstein, vara-dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, hvort hvetja ætti ráðherra til að nýta sér 25. gr. stjórnarskrárinnar til að bola forsetanum úr embætti. Hann benti einnig á þá leið að taka með leynd upp það sem forsetinn segði „til að afhjúpa upplausnina í ríkisstjórninni“. Frá þessu er skýrt í grein í The New York Times föstudaginn 21. september eftir Adam Goldman og Michael S. Schmidt.

Óljóst er hve mikil alvara var í orðum Rosensteins. Í blaðinu segir að aldrei hafi verið gripið til upptöku þegar rætt var við Trump um val á nýjum forstjóra FBI. Sagt er að Rosenstein hafi skýrt Andrew McCabe, fyrrv. varaforstjóra FBI, frá því að hann teldi sig geta fengið Jeff Sessions dómsmálaráðherra og John Kelly, þáv. heimavarnaráðherra, í lið með sér til að bola Trump frá völdum.

Þegar Trump rak James Comey vitnaði hann til minnisblaðs sem Rosenstein skrifaði og gagnrýndi hvernig Comey stóð að rannsókn á tölvubréfum Hillary Clinton.

Rosenstein andmælti greininni í NYT og sagði hana „ónákvæma og með staðreyndavillum“. Hann sagði einnig: „Ég vil taka skýrt fram: Með vísan til persónulegra samskipta minna og forsetans er engin ástæða til að beita 25. greininni.“

Upplýsingafulltrúi dómsmálaráðuneytisins sendi yfirlýsingu til NYT þar sem einhver sem hafði verið viðstaddur þegar Rosenstein nefndi hugmyndina um leynilega upptöku á samtali við Trump sagði þetta hafa verið sagt í gríni.

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …