Home / Fréttir / Rök hníga að NATO-aðild Svía segir í áliti starfshóps

Rök hníga að NATO-aðild Svía segir í áliti starfshóps

Ann Linde utanríkisráðherra kynnir niðurstöðu starfshóps um öryggismál föstudaginn 13. maí 2022.

Þegar Ann Linde, utanríkisráðherra Svía, kynnti föstudaginn 13. maí niðurstöður álits starfshóps með fulltrúum allra þingflokka sagði hún að NATO-aðild mundi „hækka þröskuld hernaðarátaka í Evrópu“.

Ráðherrann sagði að helsta afleiðing aðildar Svía að NATO í framtíðinni yrði að þjóðin yrði þátttakandi í sameiginlegu öryggiskerfi NATO og það myndi minnka líkur á átökum í Evrópu.

Peter Hultqvist varnarmálaráðherra bætti við að við aðild að NATO yrði fyrirsjáanlegra hvernig bandamenn Svía brygðust við á hættustund eða við hernaðarárás.

Álitið var samið af starfshópi sem var skipaður 16. mars og hittist sex sinnum undir forystu Linde. Auk hennar og Hultqvists sátu tveir fulltrúar frá hverjum af flokkunum átta sem eiga menn á þingi í hópnum. Í álitinu er ekki mælt beint með því að Svíar sæki um aðild að NATO en meginsjónarmiðin sem þar birtast hníga í þá átt.

Við kynninguna voru hvorki Linde ný Hultqvist fús til að lýsa eigin afstöðu til aðildarinnar. Þau sögðu að sem ráðherrar Jafnaðarmannaflokksins yrðu þau að bíða ákvörðun flokksstjórnar sinnar, hvort hún breytti stefnu flokksins sem hefur til þessa lagst gegn NATO-aðild. Flokksstjórnin kemur saman sunnudaginn 15. maí.

Hans Wallmark, talsmaður Moderatarna (mið-hægri) í utanríkismálum, sagði skoðun sína skýra. Hann væri sammála því sem fram hefði komið fimmtudaginn 12. maí hjá forseta og forsætisráðherra Finnlands. Svíar ættu „án tafar“ að sækja um aðild að NATO.

Í álitinu er bent á að innrás Rússa í Úkraínu sé ekki skammtíma-vandamál heldur beri að líta á hana sem hluta af „kerfislægri og langtíma hnignun stöðu öryggismála í Evrópu“ þess vegna væri „nauðsynlegt að meta hvernig tryggja megi öryggi Svíþjóðar sem best“.

Þá segir einnig að þótt sænski herinn auki sífellt samhæfingu sína með samstarfsherjum Svía sé „ekki nein trygging fyrir að Svíar fái hjálp vegna alvarlegrar hótunar eða árásar á land sitt sem fellur ekki innan ramma núverandi samvinnu“.

Rökstutt er að tvíhliða samstarf sé „ekki raunhæfur kostur“ og innan ESB skorti „pólitískan vilja“ til að stofna til gagnkvæms varnarkerfis. Þá sýni árás á Úkraínu takmörk þeirrar aðstoðar sem NATO veitir ríkjum utan bandalagsins.

„Aðild Svíþjóðar að NATO hækkar þröskuld hernaðarátaka og stuðlar þannig að minni líkum á átökum í norðurhluta Evrópu,“ segir í niðurstöðum álitsins og einnig:

„Verði bæði Svíþjóð og Finnland aðilar NATO njóta öll norrænu og baltnesku ríkin skuldbindingar um gagnkvæmar varnir. Dregið verður úr óvissunni sem nú ríkir um hvernig við yrði brugðist vegna breytinga á ógnarástandi eða vegna vopnaðrar árásar.“

Fulltrúar Græningja og Vinstriflokksins sem eru andvígir NATO-aðild neituðu að standa að niðurstöðum álitsins. Þeir studdu aðeins þann hluta þess þar sem lýst er breyttu ógnarástandi.

Håkan Svenneling, þingmaður Vinstriflokksins, sagði álitið „skjal í þágu sænskrar NATO-aðildar“ alls sem væri neikvætt við hana væri getið í mýflugu mynd.

Tekið er tillit til sjónarmiða andstæðinga NATO þegar sagt er að aðildin komi ekki í veg fyrir að Svíar geti haldið fram gildum sínum á alþjóðavettvangi, þar á meðal um kjarnorkuafvopnun.

Fram kemur að Rússar lýsi vafalaust vonbrigðum sínum vegna aðildar Svía og Finna að NATO og kunni að grípa til annarra gagnaðgerða en hernaðarlegra, ólíklegt sé að þeir þeir grípi til vopna gegn Svíum.

 

 

 

 

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …