
Bandaríkjamenn þurfa traustan bandamann í miðhluta Evrópu. Pólverjar eru kjörnir til að gegna því hlutverki og ekki spillir að þeir eru fúsir til að borga með sér segir Salvatore Babones, aðstoðarprófessor í félagsfræði við Sydney-háskóla í Ástralíu, í grein á bandarísku vefsíðunni National Interest laugardaginn 22. september.
Prófessorinn rifjar upp að Andrzej Duda, forseti Póllands, hafi rætt um varnir Póllands við Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, þriðjudaginn 18. september. Pólskar varnir séu varnir Evrópu og það hafi í meira en eina öld verið þungamiðjan í utanríkisstefnu Bandaríkjanna að huga að vörnum Evrópu.
Þá segir:
„Pólland gegnir lykilhlutverki í vörnum Evrópu því að það er meginstoð varnarbaugs NATO sem teygir sig frá Noregi í norðri til Tyrklands í Kákasus. Norðurvængur NATO er öruggur. Á suðurvæng NATO ríkir upplausn þar sem efasemdir eru um hollustu Tyrkja við NATO. Það ræðst hins vegar í miðjunni hvort sigur vinnst eða ekki í hvers kyns framtíðarátökum.
Virkisveggur NATO í miðhlutanum var í Þýskalandi, nú verja Þjóðverjar einna minnst Evrópuþjóða til varnarmála og viðbragðsafl hers þeirra er ömurlegt. Þá skiptir ekki minna máli að þýskur almenningur styður ekki markmið NATO eða hlutverk Bandaríkjamanna innan ramma þess. Kannanir sýna að þeir eru frá 37% til 42% meðal Þjóðverja sem vilja að bandarískur her hverfi úr landi sínu.
Þó er jafnvel enn alvarlegra að aðeins 40% Þjóðverja styður að þýskur herafli verði notaður til að verja annað Evrópuríki gegn innrás Rússa. Í Bandaríkjunum og Póllandi er þetta hlutfall 62%. Það er rétt skilið: Bandaríkjamenn eru fúsari til að senda her á vettvang til að verja evrópskan bandamann sinn en Þjóðverjar.“
Höfundur minnir á að frá því í síðari heimsstyrjöldinni hafi meginherafli Bandaríkjamanna í Evrópu verið í Þýskalandi. Á meðan kommúnistar réðu austurhluta Evrópu var þýski heraflinn tiltölulega nærri framvarnarlínunni. Nú séu hins vegar tæpir 1.300 km frá herstöðvum Bandaríkjanna í Þýskalandi til næstu rússnesku herstöðvanna. Samgöngukerfið í Evrópu auðveldi ekki skjótan flutning bandarísks herafla að austur landamærum Póllands.
Í stuttu máli er niðurstaða prófessorsins að Þýskaland sé rangur staður og þar sé fylgt rangri stefnu til að skynsamlegt sé að velja landið sem miðstöð Bandaríkjahers í Evrópu. Það geti beinlínis hindrað beitingu heraflans að hafa hann í Þýskalandi. Þá megi ekki gleyma að þýsk yfirvöld vilji njóta orku frá Rússlandi í gegnum Nord Stream 2. Í greininni segir:
„Nord Stream er löng ól sem tengd er keðju sem unnt er að þrengja að hálsi þýska kjölturakkans. Rússar þurfa ekki að toga í ólina til að hún virki, með ólinni er ekki ætlunin að toga Þjóðverja að Rússum. Tilgangurin með ólinni er að hindra að Þjóðverjar beiti sér gegn Rússum.“
Greininni lýkur á þessum orðum:
„Andrzej Duda, forseti Póllands, býðst til að reisa Trump-virkið (e. Fort Trump) og skapa þar nýja aðstöðu fyrir bandarískan herafla í Evrópu. Ágreiningur kann að vera um pólsku ríkisstjórnina á heimavelli en hér er um að ræða mál sem í stórum dráttum sameinar pólsku þjóðina. Segja má að öll stjórnmálaöfl í Póllandi, jafnvel þeir sem lýsa harðri andstöðu við Donald Trump, styðji viðveru bandarískra hermanna. Þau virðast þar að auki fús til að standa undir kostnaði við innviðina. Rökin fyrir Trump-virkinu gætu ekki verið sterkari.“