Home / Fréttir / Rofar til í viðræðum Breta og ESB um brexit

Rofar til í viðræðum Breta og ESB um brexit

 

Stephen Barclay, brexit-ráðherra Breta, og Michel Barnier, brexit-samningamaður ESB.
Stephen Barclay, brexit-ráðherra Breta, og Michel Barnier, brexit-samningamaður ESB.

„Brexit líkist fjallgöngu,“ sagði Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB, eftir „gagnlegan“ fund með Stephen Barclay, brexit-ráðherra Breta, að morgni föstudags 11. október.

„Við þurfum að sýna aðgæslu, áræðni og þolinmæði,“ sagði Barnier við fréttamenn á leið sinn á fund sendiherra og þingmanna ESB-ríkja þar sem hann lýsti gangi mála.

Hann sagði ekkert um efni viðræðnanna.

Barnier og Barclay hittust daginn eftir að Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, og Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands, höfðu rætt lengi saman og komist að þeirri niðurstöðu að hugsanlega mætti ná samkomulagi um brexit, útgöngu Breta úr ESB.

Allt annað andrúmsloft ríkti á fundi forsætisráðherranna en einkenndi samskiptin í byrjun vikunnar þegar embættismenn ESB og Bretlands skiptust á gagnkvæmum ásökunum.

Eins og áður veldur varnaglinn til að hindra landamæri á Írlandi mestum vandræðum. ESB vill að Norður-Írland verði áfram innan tollabandalags ESB-ríkjanna til að koma í veg fyrir landamæravörslu á Írlandi sem kynni að grafa undan friði á eyjunni. Bretar telja að í kröfunni felist ólýðræðisleg nauðung.

Bretar lögðu fram nýjar tillögur í fyrri viku sem lesa má hér fyrir neðan.

Að morgni föstudags 11. október sagði Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, að Bretar ættu „enn eftir að leggja fram nothæfa, raunhæfa tillögu“ en mildaði boðskap sinn með að segja „þó verður að nota minnsta tækifæri (til að ná samkomulagi)“.

Tillögur Breta

Boris Johnson hefur lagt fram þessar tillögur vegna sérstöðu Norður-Írlands:

  • Norður-Írland fari úr tollabandalagi við ESB í upphafi árs 2021 með öðrum hlutum Bretlands.
  • Norður-Írar haldi hins vegar áfram að fylgja ESB-lögum um landbúnaðarvörur og annan varning sé það samþykkt af þingi Norður-Írlands.
  • Fræðilega kann þess skipan að gilda til langframa en á fjögurra ára fresti yrði málið lagt fyrir þing Norður-Írlands.
  • Framkvæmd á tollgæslu milli Bretlands og ESB yrði „ekki miðlæg“, skjöl yrðu lögð fram rafrænt og aðeins „mjög sjaldan“ framkvæmd tollskoðun.
  • Tollskoðunin yrði fjarri sjálfum landamærunum, á vettvangi viðskipta eða á „öðrum stað í flutningakeðjunni“.

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …