
Fastafulltrúar aðildarríkja NATO rituðu þriðjudaginn 5. júlí undir aðildarskjöl vegna inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í Atlantshafsbandalagið við hátíðlega athöfn í höfuðstöðvum þess í Brussel. Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finna, og Ann Linde, utanríkisráðherra Svía, tóku þátt í athöfninni.
Í ávarpi sem Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, flutti sagði hann þetta sannarlega sögulegan atburð. Hann skipti miklu fyrir Finna og Svía og sameiginlegt öryggi allra bandalagsþjóðanna. Með fulltrúa 32 ríkja við NATO-borðið mundi bandalagið styrkjast og öryggi aðildarþjóðanna aukast á sama tíma og þjóðirnar stæðu frammi fyrir mestu hættu sem steðjað hefði að öyggi þeirra um margra áratuga skeið.
Næsta skref til fullrar aðildar Finna og Svía að NATO er að aðildarskjölin verði fullgilt á stjórnskipulegan hátt af hverju aðildarlandi fyrir sig.