Home / Fréttir / Risaheræfing Rússa og Hvít-Rússa hafin við austur landamæri NATO

Risaheræfing Rússa og Hvít-Rússa hafin við austur landamæri NATO

Rússneskir skriðdrekar á æfingu.
Rússneskir skriðdrekar á æfingu.

Ein mesta heræfing Rússa frá lokum kalda stríðsins hófst skammt frá austur landamærum NATO-ríkjanna fimmtudaginn 14. september. Hvít-Rússar taka einnig þátt í æfingunni. Hún ber heitið Zapad 2017 (Vestur 2017). Heræfingar með þessu heiti hafa verið stundaðar síðan árið 1973.

Að þessu sinni stendur æfingin til miðvikudags 20. september. Hún er við vestur landamæri Rússlands og Hvíta-Rússlands og í Kaliningrad, rússnesku hólmlendunni við Eystrasalt milli Litháens og Póllands. Zapad-æfingin nær til landhers, herflota og flughers.

Ráðamenn í Póllandi, Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Slóvakíu, Rúmeníu og Búlgaríu hafa lýst áhyggjum vegna æfingarinnar. Þeir óttast að Rússar kalli ekki hermenn sína til heimastöðva eftir að æfingunni lýkur. Hvít-Rússar segja að allir erlendir hermenn verði á brott frá landi sínu  30. september.

Rússar segja að Zapad 2017 sé „einvörðungu í varnarskyni“.

Rússar segjast ætla að virkja 12.700 hermenn sem eiga að berjast við ímyndaðan óvin rétt við landamæri Póllands og Eystrasaltsríkjanna.

Af hálfu NATO er því haldið fram að Rússar hafi reynt að sveipa æfinguna leyndarhulu. Þá hafi Rússar einnig gefið rangar upplýsingar um umfang æfingarinnar.

Alexander Golts, sérfræðingur um rússneska herinn, segir við AFP-fréttastofuna Rússa „leggja sig mjög fram um að stunda töluleik við æfingar af þessu tagi til að komast hjá því að bjóða erlendum eftirlitsmönnum“.

Hann segir allar æfingar Rússa snúast um það sama: að beita heraflanum af miklum hraða.

Zapad 2017 æfingasvæðið.
Zapad 2017 æfingasvæðið.

Petro Porosjenko, forseti Úkraínu, hefur sagt að hugsanlega sé Zapad 2017 forleikur að innrás í Úkraínu og hafa öryggisráðstafanir verið auknar á landamærum ríkisins.

Í Póllandi, Eistlandi, Lettlandi og Litháen eru samtals 4.530 hermenn undir merkjum NATO. Þá heldur bandalagið einnig úti loftrýmisgæslu yfir Eystrasaltsríkjunum.

Sviðsmyndin fyrir Zapad 2017 gerir ráð fyrir að „skemmdarverkamenn“ og „hryðjuverkamenn“ frá gervilandinu Veishnoriu ráðist með vopnum gegn stjórninni í Hvíta-Rússland en hún leiti aðstoðar hjá Rússum.

Meginmarkmið æfingarinnar er að sameina herstjórnir ríkjanna beggja með því að stofna í æfingaskyni til eins raunverulegra átaka og verða má. Hvít-Rússar virkja um 7.200 hermenn en Rússar 5.500, segir rússneska varnarmálaráðuneytið.

Sjónvarpið í Hvíta-Rússlandi segir að 80 vestrænir eftirlitsmenn, m. a. frá Póllandi og Eystarsaltsríkjunum séu skráðir vegna æfinganna. Í hópnum eru embættismenn frá NATO, ÖSE og sendiráðum erlendra ríkja í Hvíta-Rússlandi.

Antoni Macierewicz, varnarmálaráðherra Póllands, er í hópi þeirra sem hafa látið í ljós áhyggjur vegna hættunnar af Zapad 2017.

„Æfingin er ógn við okkur, hvað sem Rússar segja,“ sagði ráðherrann við pólska sjónvarpsstöð. „Hún er alls ekki í varnarskyni heldur einkennist hún af sóknarstyrk og er hættuleg.“

Hannes Hanso, þingmaður í Eistlandi, sagði að hann hefði rætt við „starfsbræður frá Hvíta-Rússlandi“ um hernaðarlegt mikilvægi þess sem kallað er „Suwalki-hliðið“ – svæðið á milli landamæra Hvíta-Rússlands og Kaliningrad.

„Af Rússa hálfu væri rökrétt að reyna að einangra okkur, þetta hafa þeir þegar æft,“ sagði hann. Hvít-Rússarnir hefðu hins vegar viljað fullvissa sig um að „land þeirra [yrði] ekki notað til slíkra hluta“.

Raimonds Vejonis, forseti Lapplands, sagði að þjóð sín og aðrir ættu ekki að láta kúga sig til neins. Með Zapad-æfingunni væri ætlunin að skapa öryggisleysi meðal Eystrasaltsþjóðanna.

Heimild: BBC

 

Skoða einnig

Tortryggni í garð Moskvuvaldsins vex í gömlu Sovétlýðveldunum

Stuðningur við forsystusveit Rússlands hefur hrapað í nágrannalöndum landsins. Íbúar landanna eru tortryggnir í garð …