Home / Fréttir / Risaheræfing NATO með undanfara á og við Ísland

Risaheræfing NATO með undanfara á og við Ísland

Norskur hermaður í vetrarklæðum.
Norskur hermaður í vetrarklæðum.

Efnt verður til NATO-heræfingarinnar Trident Juncture með þátttöku um 40.000 hermanna í Noregi í október. Þýskt stórfylki, um 8.000 menn, verður þar í fararbroddi segir þýska fréttastofan DW föstudaginn 17. ágúst. Rússum var tilkynnt um æfinguna í nánd landamæra sinna á fundi með NATO-sendiherrum í maí sl.

Fréttastofan segir að NATO hafi staðfest föstudaginn 17. ágúst að heræfingin standi í tvær vikur og hefjist 25. október. Hún verði í lofti, á sjó og á landi. Þátttakendur verða frá NATO-löndunum auk Svíþjóðar og Finnlands. Þetta er viðamesta heræfing NATO frá lokum kalda stríðsins. Áður en aðalæfingin hefst verður undanfari hennar hér á landi og á hafinu umhverfis Ísland.

Frá því í fyrra hafa 28 aðildarríki NATO efnt til minni æfinga í Póllandi og Eystrasaltslöndunum þremur, Eistlandi, Lettlandi og Litháen, sem taka mið af afskiptum Rússa af innri málefnum Úkraínu síðan 2014 þegar þeir innlimuðu Krímskaga á ólögmætan hátt og tóku að styðja aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu.

Rússar efndu til heræfingarinnar Zapad í Hvíta-Rússlandi á árinu 2017, rétt austan við landamærin gagnvart NATO-ríkjunum. Þá áréttaði Federica Mogherini, utanríkis- og öryggismálastjóri ESB, að auka þyrfti skjóta viðbragðsgetu kæmi til árekstra.

Irina Novakova, upplýsingafulltrúi NATO, sagði við DW föstudaginn 17. ágúst að tilgangurinn með því að virkja „120 flugvélar, 70 skip og 10.000 farartæki“ til æfinga „að mestu“ í Noregi væri að láta reyna á hæfni bandalagsríkjanna til „að starfa saman og verja landsvæði okkar og íbúa þeirra“.

Stefnt er að því að Þjóðverjar sendi 200 brynvarða vígdreka til æfingarinnar, þar af 20 Leopard skriðdreka. Eins og áður sagði verða þýsku hermennirnir um 8.000 og faratæki þeirra um 2.000.

Bandaríski flotaforinginn James G. Foggo III. fer með æðstu stjórn. æfingarinnar. Hann hefur lýst tilgangi hennar á þann veg að hún eigi að sýna að brugðist yrði hart við hvers konar ógn, hvar og hvenær sem til hennar kæmi. Á þann hátt yrði hugsanlegum andstæðingi best gert ljóst að hann ætti að halda sér í skefjum.

Foggo fagnar því að með æfingunni verði stofnað til samstarfs við tvo nánustu og færustu samstarfsþjóðir á svæðinu, Svía og Finna.

Foggo sagði að Norðmenn hefðu lagt mikið af mörkum til að Trident Juncture skilaði sem mestum árangri fyrir bandalagið. Hann sagði jafnframt að áður en aðalæfingin hæfist yrði undanfari hennar um miðjan október á og umhverfis Ísland.

Foggo sem er kafbátaforingi verður sjálfur á hafi úti undan strönd Noregs. Christian Juneau, hershöfðingi frá Kanada, stjórnar landher NATO í Noregi.

Norski flotaforinginn, Ketil Olsen, fulltrúi Noregs í hermálanefnd NATO, sagði að með æfingunni gæfist Norðmönnum færi á að láta reyna á allt varnarkerfi sitt við erfiðar veðurfarslegar aðstæður. Þá yrði einnig látið reyna á getu þeirra til að taka við liðsauka á hættustundu.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …