Home / Fréttir / Risaæfing NATO er hafin

Risaæfing NATO er hafin

 

Fjöldi skriðdreka var fluttur til Noregs.
Fjöldi skriðdreka var fluttur til Noregs.

Mesta varnaræfing NATO frá því að Sovétríkin hrundu hófst fimmtudaginn 25. október. Markmið æfingarinnar, Trident Juncture, er að sameina hernaðarmátt þátttökuríkjanna til að sýna að honum sé að mæta á sjó, landi og í lofti verði gerð árás á eitthvert NATO-ríki.

Æfingin stendur í tvær vikur undan strönd Noregs og í Noregi auk þess að teygja sig inn á Eystrasalt. Undanfari æfingarinnar var hér á landi í fyrri viku. Öll NATO-ríkin 29 eiga aðild að æfingunni auk Svía og Finna sem taka nú í fyrsta sinn þátt í æfingu sem er reist á 5. gr. Atlantshafssáttmálans um að árás á eitt NATO-ríki sé árás á þau öll.

Rússar gagnrýna æfinguna en umfang hennar má rekja til spennunnar sem myndaðist milli NATO og Rússa eftir rússnesku innrásina á Krímskaga 2014 og innlimun hans í Rússland.

Þá liggja Rússar undir ásökunum af hálfu NATO um að hafa sett niður nýjar kjarnorkueldflaugar sem brjóti í bága við afvopnunarsamning Rússa og Bandaríkjamanna. Flaugunun kunni að verða beitt gegn evrópskum NATO-ríkjum.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði á blaðamannafundi miðvikudaginn 24. október að Trident Juncture sýndi að NATO vildi ekki árekstra en bandalagið væri í stöðu til að vernda bandalagsþjóðir sínar gegn hvers konar ógn.

Stoltenberg vék aldrei orðum að Rússum en sagði að staða öryggismála í Evrópu hefði „versnað umtalsvert“ á undanförnum árum og NATO hefði svarað þróuninni með mestu aðlögun sameiginlegra varna sinna frá lyktum kalda stríðsins og Trident Juncture væri til marks um þá aðlögun.

Alls taka 65 skip, 250 flugvélar, 10.000 ökutæki og um 50.000 manns þátt í Trident Juncture sagði Stoltenberg. Æfingunni er skipt í tvo þætti. Dagana 25. október til 7. nóvember er liðsafli æfður á vettvangi. Dagana 14. til 23. nóvember er æfing í herstjórnum NATO.

Rússar efndu til mikillar æfingar undir heitinu Zapad-2017 (Vestur-2017) í september 2017. Fór hún fram í vesturhluta Rússlands og Hvíta-Rússlandi sem á land að NATO-ríkjum. Í september 2018 efndu Rússar til risaæfingar undir heitinu Vostok-2018 (Austur-2018) og tóku um 300.000 rússneskir hermenn þátt í henni og rúmlega 3.000 Kínverjar.

Þótt Rússar gagnrýni NATO-æfinguna hafa þeir þegið boð um að eiga fulltrúa til eftirlits í Noregi.

Stoltenberg lýsti æfingunni þannig að liðsaflanum yrði skipt í tvennt, Suðurlið og Norðurlið, önnur fylkingin yrði árásaraðili og hin til varnar. Hann sagði að reynt yrði á gætu liðisins til að endurheimta fullveldi NATO-ríkis ­– í þessu tilviki Noregs ­– eftir hernaðarárás.

Hann sagði atburðarás æfingarinnar setta á svið en lærdóminn af gangi mála mætti nýta til frambúðar.

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …