Home / Fréttir / Ringulreið og grátur meðal lítt þjálfaðra rússneskra hermanna

Ringulreið og grátur meðal lítt þjálfaðra rússneskra hermanna

Rússneskir herfangar í Úkraínu.

Það ríkir „algjör ringulreið“ meðal rússneskra hermanna, baráttuþrekið er ekkert og þeir „gráta í bardögum“ segir breskt njósnafyrirtæki sem á upptökur af ummælum hermanna í fremstu línu.

Upptökur fengnar með því að hlera fjarskipti gefa til kynna að rússneskir hermenn neita að fara að fyrirmælum frá miðstöð hersins, þar á meðal um að skjóta á þorp í Úkraínu. Þá kvarta hermennirnir sáran undan skorti á matvælum og eldsneyti.

Myndskeið sýnir hóp rússneskra hermanna yfirgefa orrustuvöllinn og snúa aftur til baka inn til Rússlands.

Sagt er að hermaður hafi sent móður sinni skilaboð með þessum orðum: „Eina sem ég vil gera á þessari stundu er að svipta mig lífi.“

Háttsettur embættismaður í bandaríska varnarmálaráðuneytinu sagði þriðjudaginn 1. mars að ungir, lítt þjálfaðir nýliðar í rússneska hernum væru „illa búnir“ undir orrustu og sumir hefðu einfaldlega „vísvitandi gert gat“ á eldsneytistanka farartækja sinna til að tryggja að þeir kæmust aldrei að víglínunni.

Embættismaðurinn vildi ekki greina frá heimild sinni en á The Telegraph segir að breska njósnafyrirtækið ShadowBreak Intl.hafi tekið upp efni sem sanni lélegan anda í rússneska herliðinu.

The Telegraph segist ekki hafa getað á sjálfstæðan hátt staðfest að þessar upptökur séu réttar á hinn bóginn hafi blaðamenn hlustað á allt að 24 tíma langar upptökur hjá ShadowBreak frá því að ráðist var inn í Úkraínu fyrir sex dögum.

Fjarskiptabúnaður rússneska hersins er að nokkru þannig að radíó-áhugamenn geta hlerað hann. Það sem fyrir liggur af upptökum bregður ljósi á uppnám hermanna þegar þeim eru gefin fyrirmæli um árásir á almenning, þá bera raddir vott um mikið álag hermanna og örvinglun vegna birgðaskorts. Í einu samtali virðist hermaður gráta.

Þá segir í frétt The Telegraph miðvikudaginn 2. mars að fyrir her Úkraínu hafi reynst auðvelt að trufla fjarskipti Rússa. Það sé oft gert með því að leika þjóðsöng Úkraínu á samtals-bylgjulengd Rússanna.

Samuel Cardillo (26 ára) sem stofnaði ShadowBreak sagði að radíó-áhugamenn með búnað til hlustunar hefðu sent honum upptökur sem spönnuðu um það bil heilan dag.

„Við höfum komist að því að algjör ringulreið ríkir hjá Rússunum sem eiga hlut að máli,“ sagði Cardillo. „Þeir hafa ekki hugmynd um hvert þeir eru að fara eða hvernig þeir eigi að standa almennilega að innbyrðis fjarskiptum.“ Stundum geri þeir hljóðprufur í 20 mínútur til að ganga úr skugga um að það heyrist í þeim, þetta auðveldi áhugamönnum að stilla sig inn á bylgjur þeirra.

„Þetta er í raun eins og að hlera lögreglurás í Bandaríkjunum,“ sagði Cardillo. Ef áhugamenn gætu hlustað á þetta gætu menn rétt ímyndað sér hve miklum upplýsingum opinberar njósnastofnanir öfluðu.

Hann sagði að á upptökunum væri að finna „sannanir um stríðsglæpi“ þegar gefin væru fyrirmæli um að beita skotflaugum gegn þéttbýli.

Þegar litið er á efni í orðsendingum sem hermenn senda heim til sín og til fjölskyldna sinna blasir við að hermönnunum hafi verið talin trú um að þeir myndu fá litla andstöðu og þeim yrði fagnað sem sigurhetjum.

„Okkur var sagt að okkur yrði fagnað með opnum örmum, þeir kalla okkur hins vegar fasista,“ er sagt að rússneskur hermaður hafi sent frá Úkraínu til móður sinnar. Serhíj Kyslystia, fastafulltrúi Úkraínu hjá Sameinuðu þjóðunum (SÞ), las þennan texta upphátt á fundi SÞ mánudaginn 28. febrúar.

Fastafulltrúinn sýndi mynd af einhverju sem líktist síma með brotinn skjá. Móðirin spurði son sinn hvort hann væri enn á heræfingum. Hann svaraði:

„Eina sem ég vil gera á þessari stundu er að svipta mig lifi. Mamma, ég er í Úkraínu. Þetta er raunverulegt stríð. Ég er hræddur, við skjótum á alla, meira að segja venjulegt fólk.“

Stjórnvöld Úkraínu hafa birt fjölmörg myndskeið sem sýna rússneska hermenn leggja frá sér vopn og halda frá vígstöðvunum, gerast liðhlaupar. Á einu þeirra sést hópur meira en 10 rússneskra hermanna með bakpoka og riffla yfirgefa lítið landamæraþorp í Sumska-héraði.

Á netinu má heyra mann spyrja hermennina: „Eruð þið að yfirgefa okkur?“ Hermennirnir svara: „Við erum að fara heim.“ Þá spyr kona: „Tókuð þið allt dótið ykkar með? Ég vona að þið hafið lagt neinar sprengjur.“

Í nýlegum rússneskum lögum segir að tölur um mannfall í „sérstökum hernaðaraðgerðum erlendis“ á friðartímum séu ríkisleyndarmál.

Bandaríska varnarmálaráðuneytið telur að lítið baráttuþrek og vandræði við birgðaflutninga skýri að einhverju leyti hvers vegna um 60 km löng lest skriðreka og brynvagna á leið til Kyív mjakast varla áfram. Þá kunni rússneska herstjórnin einnig að vinna að nýjum árásaráætlunum. Í bandaríska varnarmálaráðuneytinu er talið að Rússar hafi virkjað um 80% umsátursliðsins.

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …