Home / Fréttir / Ríkisútvarpið segir frá endurbótum í þágu varnarliðs á Keflavíkurflugvelli

Ríkisútvarpið segir frá endurbótum í þágu varnarliðs á Keflavíkurflugvelli

Frá öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli sem eru undir daglegri stjórn Landhelgisgæslu Íslands í umboði utanríkisráðuneytisins.
Frá öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli sem eru undir daglegri stjórn Landhelgisgæslu Íslands í umboði utanríkisráðuneytisins.

Á vefsíðu ríkisútvarpsins ruv.is má laugardaginn 22. júní sjá þrjár fréttir vegna fyrirhugaðra framkvæmda Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli.

Höfundur fréttanna er Alma Ómarsdóttir fréttakona en þær snúast allar um sama stefið þótt útfærslan sé nokkuð mismunandi.

Það sem fréttakonan kallar „færanlega herstöð“ er áætlun bandaríska flughersins um að búa þannig um hnúta að á nokkrum flugvöllum í Evrópu sé aðstaða til að taka á móti herafla og því sem honum fylgir með skömmum fyrirvara.

Í fréttunum segir að hér snúist þetta um aðstöðu til að meðhöndla hættulegan farm, stækkun flughlaðs og aðstöðu fyrir hermenn.

Hér eru fréttirnar af ruv.is birtar í heild:

Bandaríkjaher byggir fyrir milljarða á Íslandi

Alma Ómarsdóttir kl. 18:58 föstudag 21. júní

Bandaríkjaher áformar framkvæmdir við hernaðaruppbyggingu á Keflavíkurflugvelli fyrir um sjö milljarða króna. Þingmaður Vinstri grænna segir að sér finnist þetta glatað.

Samkvæmt fjárhagsáætlun bandaríska flughersins fyrir 2020 verður 57 milljónum dollara varið til framkvæmda á Keflavíkurflugvelli, eða sem nemur um sjö milljörðum króna. Átján milljónir dollara fara til uppbyggingar á svæði til meðhöndlunar hættulegs farms, svo sem vopnabúnaðar, sjö milljónir dollara fara til uppbyggingar færanlegrar aðstöðu fyrir herlið og 32 milljónir dollara fara í stækkun flughlaðs fyrir herinn.

Markmiðið er samkvæmt áætlun hersins um að búa svo um hnútana að hægt verði að taka við allt að tveimur orrustuflugsveitum hvenær sólarhringsins sem er. Í hverri flugsveit eru jafnan 18 til 24 orrustuflugvélar.

Alþingi samþykkti í gær að færa 300 milljónir af fyrirhuguðum framlögum til þróunaraðstoðar til útgjalda vegna viðhalds mannvirkja Atlantshafsbandalagsins á Keflavíkurflugvelli. Tveir þingmenn Vinstri grænna sátu hjá við afgreiðslu málsins, þau Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson. „Umfram allt var þetta leið til að sýna óánægju með þessa ákvörðun,“ segir Andrés Ingi.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að þó svo að Bandaríkjamenn séu að fjárfesta í varnarmannvirkjum á Keflavíkurflugvelli, sé þörf á því að Ísland sinni viðhaldi á mannvirkjum NATO á Íslandi. „Bandaríkjamenn eru að fjárfesta sem nemur sjö milljörðum króna á næstu árum, en það er ýmislegt fleira sem að okkur snýr. Þetta er það sem er kallað varnarmannvirki en snýr mjög að öryggismálum okkar, meðal annars flugöryggi, þannig að það er forgangsmál að sinna þessum hlutum,“ segir Guðlaugur Þór.

Hermenn daglega á landinu undanfarin þrjú ár

Andrés Ingi bendir á að herinn hafi undanfarið aukið mjög viðveru sína hérlendis. „Þetta eru framkvæmdir sem hafa verið í pípunum í dálítinn tíma og á síðustu árum hefur viðbúnaður NATO á vellinum stóraukist, það hafa verið hermenn að meðaltali tugum saman á hverjum einasta degi síðustu þrjú ár,“ segir Andrés Ingi. „Og til að sinna kafbátaleitarflugi þá hefur Bandaríkjaher viljað bæta þarna aðstöðu, og þetta er greinilega farið að hafa þau áhrif að nú þarf íslenska ríkið að leggja til pening líka til að bæta þessa aðstöðu. Ég vil meina að þar með séum við komin einu skrefi of nálægt því að vera komin með herstöð hérna aftur.“

En hvað finnst honum um að þessi auknu umsvif eigi sér stað þegar Vinstri græn sitja við völd? „Mér finnst þetta bara algjörlega glatað,“ segir Andrés Ingi.

Ætla að setja upp færanlega herstöð í Evrópu

Alma Ómarsdóttir kl. 12:48 laugardag 22. júní.

Framkvæmdir Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli eru liður í því að setja upp færanlega herstöð í Evrópu. Ráðist verður í framkvæmdir á vellinum fyrir um 7 milljarða króna strax á næsta ári.

Erlendir hermenn höfðu daglega viðveru á Keflavíkurflugvelli undanfarin þrjú ár. Í fyrra komu ríflega ellefu hundrað hermenn til landsins. Hermenn sem sinntu stuðningi við kaf­báta­eft­ir­lit voru allt að 209 daga á landinu. Þetta kemur fram í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn frá þingmanni Vinstri grænna um viðveru herliðs á Keflavíkurflugvelli.

Í fjárhagsáætlun Bandaríkjahers fyrir árið 2020, sem kom út í mars, kemur fram að herinn ætlar í framkvæmdir á Íslandi fyrir um sjö milljarða króna. Í skýringum með áætluninni kemur fram að framkvæmdirnar séu liður í að setja upp í Evrópu svokalla ECAOS, sem er í raun færanleg herstöð sem hægt er að setja upp með hraði ef þörf krefur. Samkvæmt svari frá Sveini H. Guðmarssyni, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins, er ekki áætlað að slíkt ECAOS verði staðsett hér á landi.

Alþingi samþykkti í gær að lækka fyrirhuguð framlög til þróunarsamvinnu um 600 milljónir króna á ári. Þar af verða 300 milljónir færðar til útgjalda vegna viðhalds mannvirkja Atlantshafsbandalagsins á Íslandi.

Þörf á fjármunum til viðhalds flaggað í mars

Willum Þór Þórsson formaður fjárlaganefndar segir að ekki hafi legið fyrir að þörf væri á fjármunum til framkvæmda við viðhald á mannvirkjum NATO á Keflavíkurflugvelli fyrr en í mars. „Það er eftir að málið kemur til nefndarinnar í mars að þessu er flaggað,“ segir Willum. „Það er brýn þörf að bregðast við þessari uppsöfnuðu viðhaldsþörf og tryggja óbreytta starfsemi með viðhald varnarmannvirkja Atlantshafsbandalagsins, sem er auðvitað á ábyrgð stjórnvalda, og þetta er framlag Íslands til þessara framkvæmda.“

Í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar kemur fram að 300 milljónir króna voru færðar af fyrirhuguðum framlögum til alþjóðlegrar þróunaraðstoðar til framkvæmdanna. Willum bendir á að fjárframlög til þróunarmála verði endurskoðuð. Framlög til þróunaraðstoðar eigi að vera 0,35% af vergum þjóðartekjum árið 2022. „Það sem að þessi millifærsla gerir, er að það vantar 0,01% upp á að hlutfallið náist miðað við stöðuna í dag og spá um vergar þjóðartekjur, en við munum tryggja það við fjárlagagerðina í haust að markmiðinu verði náð og að 0,35% af vergum þjóðartekjum – sem er verið að hækka til þróunaraðstoðar – við viljum standa við það,“ segir Willum.

Framkvæmdir fyrir 3 milljarða hefjast í haust

Alma Ómarsdóttir kl. 18.06 laugardag 22. júní

Framkvæmdir Bandaríkjahers að andvirði ríflega þriggja milljarða króna hefjast á Keflavíkurflugvelli í haust. Þetta eru fyrstu framkvæmdirnar á vegum bandarískra stjórnvalda á Íslandi síðan varnarliðið hætti starfsemi haustið 2006.

Að loknu útboði var í lok árs í fyrra gerður verksamningur milli bandaríska sjóhersins og bandaríska verktakans Rizzani DE Eccher um tvenns konar framkvæmdir á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Annars vegar um byggingu þvottastöðvar fyrir flugvélar og hins vegar um viðhald og breytingar á flugskýli 831, þannig að hægt verði að taka inn í skýlið kafbátaeftirlitsflugvélar Atlantshafsbandalagsþjóðanna, P-8 Poseidon. Þá hefur verið undirritaður verksamningur milli bandaríska sjóhersins og ÍAV um viðhald og endurbætur á flugvélastæðum, akstursbrautum flugvéla og ljósakerfum á vellinum. Heildarkostnaður verkefnanna eru ríflega 25 milljónir dollara eða rúmir þrír milljarðar króna.

Samkvæmt fjárhagsáætlun bandaríska flughersins fyrir 2020 verður 57 milljónum dollara varið til framkvæmda á Keflavíkurflugvelli á næsta ári, eða sem nemur um sjö milljörðum króna. Sjö milljónir dollara fara til uppbyggingar færanlegrar aðstöðu fyrir herlið, 32 milljónir dollara fara í stækkun flughlaðs fyrir herinn og átján milljónir dollara fara til uppbyggingar á svæði til meðhöndlunar hættulegs farms, svo sem vopnabúnaðar (Dangerous Cargo PAD). Þær framkvæmdir hafa enn ekki verið boðnar út. Útlit er því fyrir framkvæmdir að andvirði allt að tíu milljarða króna á vegum Bandaríkjahers á Íslandi.

 

 

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …