Home / Fréttir / Ríkisstjórnir Íslands og Bandaríkjanna árétta gildi varnarsamstarfsins í yfirlýsingu

Ríkisstjórnir Íslands og Bandaríkjanna árétta gildi varnarsamstarfsins í yfirlýsingu

Robert O. Work, varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Robert O. Work, varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna.

 

Síðdegis miðvikudaginn 29. júní birtist fréttatilkynning á vefsíðu utanríkisráðuneytisins um að Lilja D. Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og Robert O. Work, varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefðu þann sama dag ritað undir sameiginlega yfirlýsingu um samstarf á sviði varnarmála.

Robert O. Work var hér á landi í byrjun september 2015. Hann ræddi við Gunnar Braga Sveinsson, þáv. utanríkisráðherra, og kynnti sér meðal annars aðstæður á Keflavíkurflugvelli þar sem hann taldi að breyta þyrfti flugskýli 831 til að hýsa Poseidon 8 kafbátaleitarvélar Bandaríkjanna.

Stars and Stripes, blað bandaríska hersins, birti þriðjudaginn 9. febrúar frétt um fjárlagatillögu varnarmálaráðuneytisins til endurnýjunar á flugskýli 831.

Í fjárlögum ársins 2017 fer bandaríska varnarmálaráðuneytið fram á fjórföldun fjárveitinga til að tryggja varnir Evrópu. Hluti hækkunarinnar á að renna til þess að endurnýja flugskýli fyrir kafbátaleitarvélar. Það var reist og hannað fyrir P-3C Orion-skrúfuvélarþ

Landhelgisæslan er  rekstraraðili flugskýlis 831 sem þarf að breyta fyrir nýjustu kafbátaleitarvélar Bandaríkjanna, Boeing P-8 þotur sem eru að grunni af gerðinni Boeing 737-800. Stélið á P-8 þotunum, sem bandaríski flotinn tók formlega í notkun í nóvember 2013, er 1 m hærra en á P-3 Orion skrúfuvélunum sem komu til sögunnar 1959 og settu svip á starfsemi varnarliðsins í Keflavíkurstöðinni fram á miðjan tíunda áratuginn.

Hér birtist fréttatilkynning uanríkisráðuneytisins og yfirlýsing ráðuneytanna í heild.

 

Fréttatilkynning utanríkisráðuneytisins 29. júní 2016

 

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og Robert O. Work, varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, undirrituðu í dag sameiginlega yfirlýsingu um samstarf á sviði varnarmála. Yfirlýsingin er viðbót við samkomulag sem undirritað var við bandarísk stjórnvöld haustið 2006 og rúmast innan tvíhliða varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna frá árinu 1951.

„Umhverfi öryggismála í Evrópu og norðanverðu Atlantshafi hefur breyst á undanliðnum tíu árum og íslensk og bandarísk stjórnvöld eru sammála um að tilefni sé til að endurspegla það í yfirlýsingu sem þessari“, segir Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra.

Umsvif Bandaríkjahers á norðanverðu Atlantshafi hafa aukist á síðustu árum sem kunnugt er. Þannig hefur Bandaríkjaher, frá árinu 2008, annast loftrýmisgæslu á Íslandi á vegum Atlantshafsbandalagsins einu sinni á ári og undanfarin tvö ár hafa bandarískar kafbátaleitarvélar haft tímabundna viðveru hér á landi. „Það er einkum hin tímabundna viðvera Bandaríkjahers hér á landi, sem hefur verið að þróast undanfarin ár og er stigsbreyting á okkar samstarfi, sem við viljum formfesta með þessum hætti, enda er gegnsæi afar mikilvægt í samskiptum ríkjanna. Um leið gefst hér gott tækifæri til að árétta gagnkvæmar varnarskuldbindingar og áframhaldandi samráð og samvinnu í farsælu varnarsamstarfi sem hefur farið vaxandi á síðustu árum“, segir Lilja.

Yfirlýsingin, sem fylgir hjálagt, kveður meðal annars á um áframhaldandi stuðning Bandaríkjanna við loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins hér á landi og tímabundna viðveru kafbátarleitarvéla, náið samráð um öryggis- og varnarmál, viðhald og rekstur varnarmannvirkja, upplýsingaskipti og hagnýtt samstarf, meðal annars á sviði æfinga, leitar og björgunar og neyðaraðstoðar.

Undirritunin fór fram í Reykjavík og Washington.

 

 

SAMEIGINLEG YFIRLÝSING VARNARMÁLARÁÐUNEYTIS BANDARÍKJANNA OG UTANRÍKISRÁÐUNEYTIS ÍSLANDS

 

Ástand öryggismála í Evrópu og á Norður-Atlantshafi hefur breyst síðan Bandaríkin og Ísland undirrituðu samkomulag sín á milli árið 2006, sem heldur áfram gildi sínu og mótar áfram tvíhliða samskipti okkar á sviði varnarmála. Í því skyni að styrkja grundvöll samstarfs um ókomin ár lýsa varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna og utanríkisráðuneyti Íslands yfir eftirfarandi:

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna og utanríkisráðuneyti Íslands árétta viðvarandi skuldbindingu sína um náið samstarf á sviði varnar- og öryggismála, tvíhliða sem og á vettvangi Atlantshafsbandalagsins. Varnarsamningurinn sem er í samræmi við Norður- Atlantshafssamninginn og var undirritaður í Reykjavík hinn 5. maí 1951 („varnarsamningurinn frá 1951“) verður áfram undirstaða samstarfs milli landanna tveggja á sviði varnarmála.

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna áréttar skuldbindingu sína viðvíkjandi vörnum Íslands í samræmi við varnarsamninginn frá 1951, meðal annars með áætlun sem tryggir varnir Íslands með öflugum og breytanlegum úrræðum og liðsafla.

Utanríkisráðuneyti Íslands áréttar, sem framlag til sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins, skuldbindingu sína um rekstur varnaraðstöðu og -búnaðar, meðal annars rekstur íslenska loftvarnarkerfisins (IADS), um að veita gistiríkisstuðning vegna annarra aðgerðaþarfa, eins og loftrýmisgæsluverkefna Atlantshafsbandalagsins frá flugbækistöðinni í Keflavík, aukinnar tímabundinnar viðveru á vettvangi eftir þörfum, meðal annars en ekki einvörðungu vegna viðveru kafbátarleitarvéla, og vegna sameiginlegra áætlanagerða og varnaræfinga fyrir bandalagið.

Í því skyni að treysta sameiginlegar skuldbindingar landanna tveggja viðvíkjandi framkvæmd varnarsamningsins frá 1951 og fyrirkomulagi vegna varnarmannvirkja Atlantshafsbandalagsins á Íslandi, hefur verið gengið frá eftirfarandi samkomulagi:

  1. Utanríkisráðuneyti Íslands tryggir áfram rekstur viðeigandi varnaraðstöðu og -búnaðar til framkvæmdar ákvörðunar Norður-Atlantshafsráðsins um loftrýmiseftirlit og fyrirflug og til þess að unnt sé að mæta öðrum aðgerðaþörfum Atlantshafsbandalagsins samkvæmt gagnkvæmum ákvörðunum.
  2. Utanríkisráðuneyti Íslands heimilar að varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagið nýti sér aðstöðu eftir þörfum og í samræmi við varnarsamninginn frá 1951 og skuldbindingar Atlantshafsbandalagsins sem eru sameiginlega ákvarðaðar og styðja við varnir Íslands og öryggi þess svæðis sem Norður-Atlantshafssamningurinn tekur til. 1
  3. Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur tekið reglulega þátt í loftrýmisgæsluverkefnum Atlantshafsbandalagsins á Íslandi og hyggst starfa áfram með utanríkisráðuneyti Íslands að því að styðja þetta framtak.
  4. Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna og utanríkisráðuneyti Íslands heita því að samskiptin á sviði varnarmála, meðal annars vegna varnaráætlana fyrir Ísland, verði áfram öflug, þar sem áhersla er lögð á þekkingu á aðstæðum og viðbragðsflýti á Norður-Atlantshafi. Utanríkisráðuneyti Íslands samþykkir áætlanir varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna um varnir Íslands þar sem hernaðarlegum úrræðum er beitt.
  5. Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna og utanríkisráðuneyti Íslands hyggjast viðhalda traustu fyrirkomulagi tímanlegrar og skilvirkrar upplýsingamiðlunar, þegar neyðarástand ríkir, meðal annars til viðkomandi borgaralegra yfirvalda og hermálayfirvalda.
  6. Reglulegar viðræður háttsettra fulltrúa hafa verið mikilvæg viðbót við samráð um öryggismál. Bæði varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna og utanríkisráðuneyti Íslands hyggjast halda þessum viðræðum áfram í því skyni að efla tvíhliða samstarf í varnar- og öryggismálum, fjalla um þarfir Íslands fyrir landvarnir og endurskoða þróun öryggismála á Norður-Atlantshafi.
  7. Tvíhliða viðræðum sérfræðinga um samstarf í varnar- og öryggismálum, bæði hernaðarlegt og af öðrum toga, verður haldið áfram til þess að fjalla um málefni, sem þjóna sameiginlegum hagsmunum, eins og tölvuöryggi og öryggi á hafi og skipti á trúnaðarflokkuðum upplýsingum og um önnur málefni eftir því sem gagnkvæmt samkomulag er um.
  8. Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna og hlutaðeigandi íslensk yfirvöld hyggjast kanna aukið samstarf, meðal annars hugsanlegar sameiginlegar æfingar, þjálfunarstarf og starfsmannaskipti á sviðum eins og, en sem ekki einskorðast við, leit og björgun og neyðaraðstoð.

2

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …