Home / Fréttir / Ríkisstjórnir Eistlands, Lettlands og Litháens óska eftir NATO-hermönnum

Ríkisstjórnir Eistlands, Lettlands og Litháens óska eftir NATO-hermönnum

 

kaliningrad

Ríkisstjórnir Eistlands, Lettlands og Litháens óska eftir að hermenn undir merkjum NATO verði sendir til fastrar dvalar í löndum þeirra til að skapa mótvægi við aukinn þrýsting vegna umsvifa flota og flughers Rússa sagði talsmaður hers Lettlands fimmtudaginn 14. maí.

Í öllum löndunum þremur er rússneskur minnihluti. Eftir að átökin hófust um Úkraínu hefur Vladimír Pútin Rússlandsforseti ítrekað sagt að hann vilji vernda þá sem tala rússnesku í öllum löndum fyrrverandi Sovétríkja.

Mindaugas Neimontans, talsmaður hers Lettlands, sagði að vegna stöðu öryggismála á svæðinu mundu æðstu yfirmenn herja landanna hvetja forráðamenn NATO í Evrópu til að senda stórfylki á vegum NATO til dvalar til skiptis í löndunum.

Í stórfylki NATO eru á bilinu 3000 til 5000 hermenn.

Í nýrri skýrslu um átökin í Úkraínu sem unnin var að frumkvæði Boris Nemtsovs, sem myrtur var á götu í Moskvu í febrúar, segir að fjöldi rússneskra hermanna hafi fallið í átökunum.

Á leiðtogafundi NATO-ríkjanna í Wales í september 2014 var einhugur um að fjölga ferðum hermanna frá bandalagsríkjunum til Eystrasaltsríkjanna en ekki voru allir á einu máli um nauðsyn þess að opna þar NATO-herstöðvar. Leiðtogar NATO-ríkjanna k0ma næst saman í Varsjá árið 2016.

Bandaríkjastjórn heldur úti liði 150 hermanna sem ferðast reglubundið milli Eystrasaltsríkjanna þriggja.

Anders Fogh Rasmussen, fyrrv. framkvæmdastjóri NATO og forsætisráðherra Dana, sagði fyrr á árinu að Pútín mundi láta reyna á viljastyrk NATO í Eistlandi, Lettlandi og Litháen.

„Þetta snýst ekki um Úkraínu. Pútín vill endurheimta fyrri stöðu Rússlands sem stórveldis. Það er mjög líklegt að hann láti til skarar skríða á Eystrasalti til að  reyna á 5. grein NATO-sáttmálans,“ sagði Fogh Rasmussen fyrr á árinu en í 5. greininni segir að árás á eitt NATO-ríki sé árás á þau öll. Forsætisráðherrann fyrrverandi bætti við: „Pútín veit að hann verður ofurliði borinn fari hann yfir rauðu línuna og ræðst á NATO-ríki. Við getum alveg treyst því. Hann er hins vegar sérfræðingur í blendings-stríði.“

Heimild: Jyllands-Posten

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …