
Sauli Niinistö Finnlandsforseti og Stefan Löfven, forsætisráðherra Svía, verða meðal leiðtoganna sem taka þátt í vinnu-kvöldverði á leiðtogafundi NATO í Varsjá föstudaginn 8. júlí. Verður þetta í fyrsta sinn sem ríkisoddvitar ríkjanna tveggja sem standa utan hernaðarbandalaga taka þátt í slíkum trúnaðarfundi þar sem menn skiptast frjálslega á skoðunum.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, hefur í aðdraganda leiðtogafundarins lagt áherslu á Svíar og Finnar taki þátt í mörgum aðgerðum sem lúta forystu NATO, til dæmis í Afganistan. Þá hefur hann minnt á mikilvægi ríkjanna fyrir öryggi og stöðugleika á Eystrasaltssvæðinu. Hann segir að hér sé aðeins um kvöldverð að ræða en alls ákvörðun um að ríkin gerist aðilar að NATO. Það verði stjórnvöld og þjóðir ríkjanna að ákveða.
Stefnt er að því að Jussi Niinistö, varnarmálaráðherra Finna, riti undir samstarfssamning við Michael Fallon, varnarmálaráðherra Breta, í tengslum við fundinn í Varsjá. Svíar rituðu undir sambærilegan samning í tengslum við NATO-leiðtogafundinn í Wales í september 2014. Þá hafa Svíar einnig samþykkt að skrifa undir sameiginlega viljayfirlýsingu með Bandaríkjamönnum.Yfirlýsingin er sögð um tæknileg málefni, hún feli ekki í sér skyldu til viðbragða á hættustundu. Finnar og Bandaríkjamenn ræða hvort þeir gangi einnig frá slíkri yfirlýsingu, málið er enn á frumstigi.
Ælunin er að fulltrúar NATO og ESB riti undir samning í Varsjá sem efli samstarf stofnananna enn frekar.
Heimild: Yle