Home / Fréttir / Ríkisgjaldþrot sagt í Rússlandi

Ríkisgjaldþrot sagt í Rússlandi

Anton Siluanov, fjármálaráðherra Rússlands.

Rússneska ríkið stendur nú frammi fyrir afleiðingum þess að hafa ekki greitt 100 milljónir í vexti til erlendra lánardrottna sunnudaginn 26. júní. Bandaríska fjármálafréttastofan Bloomberg og breska ríkisútvarpið BBC News segja að þetta greiðslufall jafngildi ríkisgjaldþroti Rússlands.

Það varð greiðslufall á vöxtum vegna skulda í dollurum hjá rússneska ríkinu 27. maí 2022. Þar sem nú eru liðnir 30 dagar án þess að lánardrottnar hafi fengið nokkra greiðslu segir BBC News að um ríkisgjaldþrot sé að ræða.

Fréttaskýrendur segja að almennt falli það í hlut stóru alþjóðlegu matsfyrirtækjanna að lýsa land gjaldþrota. Í því felst að ríkissjóður landsins er tómur og hefur ekki bruði til að greiða skuldir ríkisins.

ESB hefur hins vegar bannað stærstu matsfyrirtækjunum – S&P, Moody’s og Fitch – að leggja mat á lánshæfi Rússlands og þau geta því ekki lýst yfir ríkisgjaldþroti þar.

Engar formlegar afleiðingar eru af ríkisgjaldþroti. Lánskjör Rússlands í framtíðinni taka hins vegar mið af því að ríkissjóður þess stendur ekki í skilum.

Bloomberg segir að rússneska ríkið hafi ekki orðið gjaldþrota síðan 1918.

BBC News segir hins vegar að rússenska ríkið hafi einnig orðið gjaldþrota árið 1998 við upplausnina undir lok stjórnartíðar Borisar Jeltsíns.

Bloomberg segir að fimmtudaginn 23. júní hafi Anton Siluanov, fjármálaráðherra Rússlands, lýst stöðunni sem „farsa“.

Fullyrða Rússar að 100 milljón dollara greiðslan hafi verið send til bankans Euroclear sem eigi að sjá um miðlun á greiðslum til lánardrottna landsins. Bloomberg segir peningana fasta þar.

Þá hafa Rússar sagt að efnahagsþvinganir Vesturlanda kunni að hindra skilvísar greiðslur af lánum. Rússar segja force majeure ráða, þeir hafi ekki lengur stjórn á málum.

Hassan Malik, höfuðgreinandi bandaríska fjárfestingarsjóðsins Loomis Sayles, dregur réttmæti þessarar fullyrðingar Rússa í efa:

„Sé litið á málið í heild voru efnahagslegu refsiaðgerðirnar svar við aðgerð af hálfu sjálfstæðs aðila,“ segir hann og vísar til innrásar Rússa í Úkraínu.

Stór hluti forða Rússlands í dollurum og evrum er geymdur utan landamæra Rússlands. Í mörgum tilvikum hafa geymsluríkin ákveðið að frysta eignirnar sem gerir Rússum erfitt fyrir þegar greiða á skuldir í erlendri mynt.

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …