Home / Fréttir / Ríki íslam fremur blóðugt hryðjuverk í Moskvu

Ríki íslam fremur blóðugt hryðjuverk í Moskvu

 

Myndin sýnir risaamkomuhúsið í Moskvu þar sem hryðjuverkið var framið.

Fjórir grímuklæddir vopnaðir menn ruddust inn í eitt stærsta samkomuhús Rússlands, Crocus-borgarhöllina í mektarhverfi utan við miðborg Moskvu, um klukkan 19.30 að staðartíma föstudaginn 22. mars í þann mund sem fólk var að taka sér sæti í 6.200 manna salnum fyrir tónleika hljómsveitarinnar Piknik sem flytur tónlist í anda þess sem var á sovéttímanum.

Bandaríska sendiráðið hvatti Bandaríkjamenn fimmtudaginn 7. mars til að halda sig frá mannamótum í Moskvu vegna hættu á hryðjuverkaárás. Miðlaði sendiráðið upplýsingum í þessa veru til rússneskra yfirvalda sem höfðu viðvörunina að engu.

Mennirnir voru vopnaðir vélbyssum og skutu á felmtri slegna tónleikagesti sem leituðu sér skjóls með því að leggjast á bak við sæti eða flýja salinn. Þá kveiktu árásarmennirnir einnig í húsinu. Þegar þetta er skrifað eftir hádegi laugardaginn 23. mars nálgast tala fallinna 150 og sagt er að svipaður fjöldi fólks hafi særst.

Að kvöldi föstudagsins 22. mars tilkynntu hryðjuverkasamtökin Ríki íslams að þau hefðu staðið að árásinni og allir árásarmanna hefðu komist lifandi á brott.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti flutti ávarp til þjóðarinnar um 19 klukkustundum eftir árásina og sagði hann alla árásarmennina (alls 11) í höndum lögreglu.

Forsetinn lýsti ódæðisverkinu sem „blóðugri, barbarískri hryðjuverkaárás“ og lýsti þjóðarsorg í 24 tíma.

„Mestu skiptir nú er að koma í veg fyrir að þeir sem standa að baki þessu blóðbaði fremji nýjan glæp,“ sagði Pútin.

Hann gaf til kynna að illvirkið tengdist Úkraínumönnum. Vígamennirnir hefðu verið á flótta til Úkraínu þegar þeir náðust.

Áður höfðu rússneskir embættismenn sagt að fjórir vopnaðir menn hefðu verið handteknir grunaðir um aðild að árásinni og sumir hefðu náðst í Brjansk-héraði í vestri en það á landamæri að Belarús og Úkraínu.

Forsetinn sagði að mennirnir fjórir hefðu „reynt að fela sig“ á leið sinni til Úkraínu en fyrstu upplýsingar bentu til að Úkraínumenn hefðu opnað glufu á landamærum sínum svo þeir kæmust frá Rússlandi.

Pútin lagði ekki fram neitt þessum málflutningi sínum til sönnunar. Embættismenn Úkraínustjórnar höfnuðu allri aðild að verknaðinum skömmu eftir að hann hófst. Tæplega 20 ár eru liðin frá því að Rússar urðu fyrir jafn grimmdarlegri hryðjuverkaárás.

Í yfirlýsingu frá Ríki íslams sagði að árásarmennirnir hefðu „snúið aftur öruggir til stöðva sinna“. Fréttastofur hafa ekki getað sannreynt þetta. Bandarískir embættismenn staðfestu það sem Ríki íslams sagði um aðild sína að árásinni.

Myndin sem Ríki íslam sendi frá sér af vígamönnunum fjórum.

Laugardaginn 23. mars birti Ríki íslams mynd af fjórum einstaklingum og segir þá hafa staðið að árásinni í úthverfi Moskvu. Myndirnar eru á síðu Amaq, fréttastofu Ríkis íslams, á Telegram samfélagsmiðlinum.

Myndum fylgir tilkynning um að árásin sé afleiðing „stríðs sem háð sé milli Ríkis íslams og landa sem berjist gegn íslam“.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …