
Milo Djukanovic, forseti Svartfjallalands, skrifaði undir mjög umdeild lög um trúarbrögð og trú laugardaginn 28. desember, daginn eftir að þingið samþykkti þau á átakamiklum fundi. Varð að beita valdi til að fjarlægja suma stjórnarandstæðinga úr þingsalnum.
Næsta skref til að tryggja gildistöku laganna um trúarbragða- og trúfrelsi og um réttarstöðu trúfélaga er að birta þau í stjórnartíðindum Svartfjallalands, ganga þau í gildi þegar átta dagar eru frá birtingu þeirra.
Þingmenn hlynntir serbneskum sjónarmiðum beittu sér gegn lagafrumvarpinu á þingi. Þeir neituðu að sækja þingfundi og létu einnig ófriðlega í þingsölum nágrannalandanna, Serbíu og Bosníu. Lögin valda gífurlegu uppnámi meðal þeirra sem eru í rétttrúnaðarkirkjunni en heimili hennar á Balkanskaga er í Serbíu.
Milo Djukanovic hefur haft forystu um málefni Svartfjallalands í nálægt 30 ár, frá því að Júgóslavía fyrrverandi splundraðist. Honum hefur verið kappsmál að takmarka ítök serbnesku rétttrúnaðarkirkjunnar í Svartfjallalandi. Hann segir hana skipta sér af stjórnmálum og hún sé handbendi útlendinga.
Forsetinn hefur hlúð að heimasprottinni kirkju sem gæti skipað sama sess og rétttrúnaðarkirkja Svartfjallalands gerði á sínum tíma. Hún var aflögð við mjög umdeildar aðstæður á árunum 1918-20.
Rúmlega 70% Svartfellinga, þeir eru alls 600.000, segjast vera í rétttrúnaðarkirkjunni.
Serbneska rétttrúnaðarkirkjan hefur harðlega mótmælt nýju lögunum. Serbneska kirkjan hefur lengi ráðið öllu í trúarlífi Svartfellinga og um tveir þriðju þeirra sem eru í rétttrúnaðarkirkjunni sækja þjónustu til serbnesku kirkjunnar. Forystumenn serbnesku kirkjunnar líta á nýju lögu sem beina aðför að sér og tilraun til að hrifsa til sín miklar kirkjueignir og aðrar eignir í Svartfjallalandi.
Talið er að serbneska kirkjan eigi um það bil 700 kirkjur, klaustur og tilbeiðslustaði í Svartfjallalandi.
Í nýju lögunum verða þeir sem krefjast eignarhalds á kirkjum eða landi þeirra að sanna að þeir hafi átt þessar eignir árið 1918 að öðrum kosti slær ríkið eign sinni á allt sem fellur undir kirkjulegt eignarhald.
Serbneska rétttrúnaðarkirkjan segist ætla að láta reyna á rétt sinn innan ramma nýju laganna.
Þrír þingmenn vinveittir Serbíu á þingi Svartfjallalands voru handteknir þegar málþóf var um frumvarpið dagana 26. og 27. desember. Þeim var ekki sleppt úr haldi fyrr en að morgni 28. desember.
Svartfellingar slitu sambandi sínu við Serbíu of stofnuðu eigið ríki árið 2006. Hafði það verið samþykkt með naumum meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu