
Sendiherrar Ungverjalands og Póllands hindruðu mánudaginn 16. nóvember að unnt yrði að samþykkja 1,8 trilljóna evru langtíma fjárlög ESB og endurreisnarsjóð vegna COVID-19-faraldurisins. Ríkisstjórnirnar eru samþykkar efni málsins en sætta sig ekki við að framkvæmd fjárveitinga sé bundin skilyrðum til stuðnings réttarríkinu.
Á fundi sínum ræddu sendiherrar ESB-ríkjanna þann lykilþátt fjárlagagerðar ESB sem snýr að setningu laga um þær tekjur sem framkvæmdastjórn ESB getur sjálf aflað. Taki lög um þetta ekki gildi er ekki unnt að ljúka ESB-fjárlagagerðinni fyrir árin 2021-27 og fjármögnun endurreisnarsjóðsins.
Á fundinum samþykkti meirihluti sendiherranna reglur um greiðslur úr sameiginlegum ESB-sjóðum. Í þeim er gert ráð fyrir að viðtakendur, ríkisstjórnir aðildarlandanna, virði réttarríkið.
Þetta snertir Pólverja og Ungverja sérstaklega þar sem fram fer rannsókn á því hvort í ríkjunum sé farið að ESB-gildisreglum.
Andstaða pólska og ungverska sendiherrans leiðir til þess að ágreiningurinn fer til æðstu ráðamanna einstakra ríkja og stofnana ESB. Þjóðverjar fara nú með forsæti í ráðherraráði ESB þannig málið kemur inn á borð Angelu Merkel Þýskalandskanslara auk þess sem Charles Michel, forseti leiðtogaráðs ESB, og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, verða að láta sig málið varða.
Líklegt er talið að málið verði rætt á fjarfundi leiðtogaráðsins fimmtudaginn 19. nóvember.
Johannes Hahn er fjárlagastjóri ESB. Hann lýsti vonbrigðum með það sem gerðist á fundi sendiherranna 16. nóvember en hvatti aðildarríkin til að axla pólitíska ábyrgð og taka af skarið um stuðning við fjárlögin og endurreisnarsjóðinn. „Þetta snýst ekki um hugmyndafræði heldur aðstoð við íbúa landa okkar sem takast á við mestu krísu sem orðið hefur frá síðari heimsstyrjöldinni,“ sagði Hahn.
Réttarríkis-skilyrðið felur í sér að sé brotið gegn gildum og reglum ESB í augljósum tengslum við ESB-sjóði getur framkvæmdastjórn ESB lagt til að frekari greiðslum úr sjóðunum verði frestað eða þær frystar enda samþykki meirihluti ESB-ríkjanna það.
Þeir sem einkum hafa hvatt til þess að þetta skilyrði sé skýrt og afdráttarlaust eru Hollendingar, Finnar, Danir, Svíar, Lúcxemborgarar, Belgar og Austurríkismenn.
Heimild: Euobserver.