
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Vladimir Pútin Rússlandsforseti hittust mánudaginn 16. júlí í Helskinki. Á blaðamannafundi að loknum viðræðunum gaf Trump til kynna að hann treysti Pútín betur en eigin njósnastofnunum þegar spurt var um ákærurnar vegna afskipta Rússa af forsetakosningabaráttunni 2016. Ummæli Trumps hafa vakið reiði meðal flokksbræðra hans í Washington.
Fyrir fundinn var lagt hart að Trump bæði úr hans eigin flokki og af hálfu demókrata að hann færi hörðum orðum um rússnesku aðgerðirnar í kosningabaráttunni árið 2016 og krefðist þess af Pútin að hann sæi til þess að ekki yrði um frekara háttalag af þessu tagi að ræða.
Trump brást við á þveröfugan hátt. Hann ítrekaði að Pútin hefði neitað öllum ásökunum um að Rússar hefðu reynt að hafa áhrif á kosningaúrslitin.
„Ég sé enga ástæðu til að ætla að þetta hafi verið Rússar,“ sagði Trump á blaðamannafundinum þar sem hann stóð við hlið Pútíns í finnsku forsetahöllinni og var spurður beint hvorum að tryði eigin njósnastofnunum eða Pútín. Þá spurði fréttamaður: „Ætlar þú með allan heiminn sem áhofanda að hafna þessum ásökunum eða veita Pútín þá viðvörun að hann skuli aldrei gera þetta aftur?“
Blaðamannafundurinn stóð í tæpa klukkustund og þar vék Trump ekki einu orði að innlimun Rússa á Krímskaga, undirróðurstarfsemi þeirra í Úkraínu, árásinni á farþegavélina frá Malasíu yfir Úkraínu eða eiturefnaárásinni á Englandi.
Trump gaf til kynna að hann treysti Pútín betur en rannsakendum Bandaríkjastjórnar aðeins þremur dögum eftir að gefin var út 29 bls. löng ákæra í Bandaríkjunum á hendur 12 nafngreindum starfsmönnum njósnastofnunar rússneska hersins, GRU, fyrir að brjótast inn í tölvukerfi demókrata og stela þaðan bréfum í kosningabaráttunni auk þess að reyna að hafa áhrif á úrslit kosninganna.
Trump viðurkenndi að „sínir menn“ hefðu sagt sér að þeir teldu Rússa standa að baki tölvuárásunum. Hann nefndi þar sérstaklega Dan Coats, helsta ráðgjafa sinn um njósna- og öryggismál. Trump sagðist treysta báðum, það er „sínum mönnum“ og Pútín.
Trump skipaði Dan Coats í stöðu í sína í mars 2017. Eftir að Trump hafði lagt hann að jöfnu við Pútín sendi Coats frá sér yfirlýsingu undir merkjum skrifstofu sinnar þar sem hann tók enn af skarið um að Rússar hefðu ekki aðeins skipt sér af kosningunum árið 2016 heldur ynnu þeir áfram að því að „grafa undan lýðræði“ í Bandaríkjunum. Coats sagði:
„Hlutverk njósna- og leyniþjónustustofnananna er að afla bestu upplýsinga og staðreynda til að semja matskýrslur fyrir forsetann og þá sem vinna að stefnumörkun. Ekkert hefur farið milli mála í mati okkar á afskiptum Rússa af kosningunum árið 2016 og á því að þeir haldi enn almennt áfram að grafa undan lýðræði okkar og við munum halda áfram að miðla hlífðarlausum, trúnaðarupplýsingum til stuðnings þjóðaröryggi okkar.“
Trump sagðist ekki „sjá neina ástæðu fyrir því“ að Rússar gerðu tölvuárás á andstæðinga hans í Demókrataflokknum. „Ég ber mikið traust til til leyniþjónustumanna minna. En ég skal segja ykkur að Pútín forseti neitaði í dag af mjög miklum þunga og afli.“
Þingmenn repúblíkana í Washington tóku framgöngu Trumps á blaðamannafundinum afar illa. John McCain öldungadeildarmaður sagði þetta einhverja ömurlegustu framgöngu Bandaríkjaforseta í manna minnum.
Paul Ryan, forseti fulltrúadeildarinnar, sagði forsetann verða að átta sig á að Rússar væru ekki bandamenn Bandaríkjamanna. Það væri alls ekki unnt að leggja Bandaríkin og Rússland siðferðilega að jöfnu.
Mitch McConnell, leiðtogi repúblíkana í öldungadeildinni, að Rússar væru engir vinir Bandaríkjamanna og hann væri algjörlega sammála mati leyniþjónustustofnananna.
Ed Royce, formaður utanríkismálanefndar fulltrúadeildarinnar, sagðist ósammála ummælum forsetans. Það væri alls ekki unnt að bera saman aðgerðir Bandaríkjamanna og Vladimírs Pútins.“
Will Hurd, þingmaður repúblíkana frá Texas, sagði: „Ég hefði aldrei getað ímyndað mér að forseti Bandaríkjanna yrði í hópi þeirra sem KGB gæti haft að leiksoppi.“