Home / Fréttir / Reiði í Rússlandi vegna mannfallsins í Makiivka

Reiði í Rússlandi vegna mannfallsins í Makiivka

Stóskotalið Úkraínuhers.

Þjóðernissinnar og nokkrir þingmenn í Rússlandi hafa krafist þess að herforingjum verði refsað fyrir vanrækslu við að gæta fyllsta öryggis í herskálum sem hýstu rússneska hermenn í einni mannskæðustu sprengjuárás sem gerð hefur verið í Úkraínustríðinu.

Rússneska varnarmálaráðuneytið braut gegn reglu sinni og viðurkenndi mánudaginn 2. janúar að 63 rússneskir hermenn hefðu týnt lífi á nýársnótt þegar verkmenntaskóli, sem hafði verið breytt í herskála, sprakk í loft upp í Makiivka, nágrannabæ Donetsk, héraðshöfuðborg austurhluta Úkraínu sem hernuminn er af Rússum.

Úkraínuher segir mannfall Rússa miklu meira, um 400 rússneskir hermenn hafi fallið og rúmlega 300 særst.

Rússar sem gagnrýna eigin herforingja segja að hermennirnir hafi verið hýstir við hliðina á vopnabúri sem að sögn rússneska varnarmálaráðuneytisins varð fyrir árás fjögurra flauga sem skotið var af HIMARS skotpöllum af bandarískri gerð.

Rússneskir bloggarar sem skrifa um hermál segja að manntjónið hafi orðið svona mikið vegna þess að herforingjar hafi látið hermennina dveljast í sömu byggingu og skotfæri þótt þeir vissu að flaugar Úkraínumanna drægju til þessa svæðis.

Igor Girkin fyrrverandi yfirmaður sveita sem börðust fyrir Rússa í austurhluta Úkraínu er nú meðal þeirra bloggara í Rússlandi sem eru mest lesnir vegna þjóðernissinnaðra og herskárra viðhorfa hans. Girkin segir að hundruð hermanna hafi fallið eða særst. Skotfæri hafi verið geymd þarna og bryndrekar hafi ekki verið faldir.

„Það sem gerðist í Makiivka var hryllilegt,“ segir Arkangel Spetnznaz Z, rússneskur bloggari um hermál sem hefur meira en 700.000 fylgjendur á Telegram samfélagsmiðlinum.

„Hverjum datt í hug að setja mikinn fjölda manna í eina byggingu, hvaða bjálfa sem er hefði mátt vera ljóst að margir mundu falla eða særast þótt ekki yrði skotið á hana með öðru en fallbyssu,“ sagði hann. Herforingjunum væri einfaldlega „alveg sama“.

Fréttaskýrendur minna á að Úkraínumenn gangist aldrei opinberlega við því að ráðast á landsvæði undir stjórn Rússa og Volodymyr Zelenskíj, forseti Úkraínu, minntist ekki á árásina á Makiivka í daglegu ávarpi sínu að kvöldi mánudags 2. janúar.

Í tilkynningu herráðs Úkraínu var hins vegar getið um Makiivka árásina og henni lýst sem „árás á rússneskan mannafla og herbúnað“. Ekkert var minnst á mannfall en sagt að 10 hertól hefðu verið eyðilögð.

Grigoríj Karasin, rússneskur öldungadeildarmaður og fyrrverandi vara-utanríkisráðherra, krafðist ekki aðeins hefndar gegn Úkraínumönnum og stuðningsmönnum þeirra í NATO heldur einnig „nákvæmrar innri rannsóknar“.

Sergei Mironov, þingmaður og fyrrv. forseti öldungadeildarinnar, krafðist þess að farið yrði með mál rússnesku embættismannanna sem sakamál fyrir að hafa leyft fjölda hermanna að dveljast í óvarðri byggingu“ og auk þess yrðu allir stjórnendur sem ekki hefðu tryggt viðunandi öryggi látnir sæta refsiábyrgð.

Nokkrir látnu hermannanna komu frá Samara héraði í suðvestur Rússlandi. Héraðsstjórinn þar fór í fjölmiðla og hvatti áhyggjufulla ættingja til að hafa samband við herskráningarstöðvar til að fá upplýsingar um skyldmenni sín.

Andreij Medvedev, varaforseti þings Moskvuborgar og blaðamaður hlynntur Kremlverjum, sagði að öll rússnesk yfirvöld, borgaraleg og innan hersins, yrðu að sýna lífi Rússa virðingu.

„Annaðhvort eru mannslíf sett í öndvegi – og refsað er fyrir heimskulegan mannskaða sem landráð gegn föðurlandinu – eða landið er úr sögunni,“ skrifaði Medvedev á Telegram.

Úkraínumenn sögðu að mánudaginn 2. janúar hefðu þeir skotið niður alla 39 drónanna sem Rússar hefðu þriðju nóttina í röð sent gegn borgaralegum skotmörkum í Kyív og öðrum borgum.

Þeim hefði tekist að sýna að það væri æ erfiðara fyrir Rússa að ná árangri með aðferðinni sem þeir hefðu beitt í hernaði sínum undanfarna mánuði – að láta drónum rigna yfir borgaraleg grunnvirki, einkum orkustöðvar.

Zelenskíj forseti sagði að Rússar hefðu tvo fyrstu dagana í janúar sent meira en 80 Shahed dróna að íranskri gerð í átt að skotmörkum í Úkraínu en þeim hefði öllum verið grandað á flugi. Fyrir Rússum vekti að gera Úkraínumenn „örmagna“ með slíkum árásum.

Hann sagði að Úkraínumenn yrðu að gera allt sem í þeirra valdi væri til að bregða fæti fyrir hryðjuverkamennina, þeim tækist ekki þetta ætlunarverk sitt frekar en önnur.

Heimild: Euronews.

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …