Home / Fréttir / Refsiaðgerðir gegn Rússum skila árangri

Refsiaðgerðir gegn Rússum skila árangri

39826614_303

Nigel Gould-Davies birti í vikunni grein á vefsíðu bandaríska tímaritsns Foreign Affairs þar sem hann segir að refsiaðgerðir ríkisstjórna Vesturlanda og sérstaklega Bandaríkjanna gagnvart Rússlandi hafi skilað mun meiri árangri en gagnrýnendur aðgerðanna vilji viðurkenna. Þær virki í raun betur og hraðar en talsmenn aðgerðanna töldu að yrði þegar til þeirra var gripið.

Fyrst var gripið til þvingana á Rússa á árinu 2014 eftir að þeir lögðu undir sig og innlimuðu Krímskaga. Til þess tíma reyndu stjórnvöld Vesturlanda að gera Rússland að virkum þátttaka í heimsviðskiptum. Við þáttaskilin 2014 var tekið til við að einangra Rússa.

Þarna urðu einnig mikilvæg skil í sögu refsiaðgerða. Á síðari tímum hafði aldrei verið gripið til þungra aðgerða gegn hagkerfi á borð við það rússneska.

Þegar litið er áhrifanna blasir við að Rússar hafa ekki skilað Krímskaga eða horfið frá Úkraínu. Þá hefur efnahagur þeirra ekki heldur hrunið. Nigel Gould-Davis segir að þetta hafi aldrei verið markmið agerðanna. Til þeirra hafi verið gripið í þríþættum tilgangi: (1) til að fæla Rússa frá að stigmagna hernaðaraðgerðir; (2) til að árétta gildi alþjóðareglna og fordæma brot á þeim og (3) til að hvetja Rússa til samninga um pólitíska lausn, einkum til að fara að Minsk-samkomulaginu sem skyldar þá til vopnahlés, brottflutnings hergagna og heimilar Úkraínustjórn að ná aftur valdi yfir eigin landamærum.

Með vísan til þessara markmiða hafi refsiaðgerðirnar í stórum dráttum virkað. Sterkar vísbendingar séu um að á tímum harðari átaka á árunum 2104—2015 hafi líkur á enn harðari refsingum haldið aftur af rússneska hernum og það ásamt úthaldi Úkraínumanna neytt Rússa til að rifa seglin.

Í krafti refsiaðgerðanna hafi metnaðarfullt markmið ekki náðst á einu sviði, það er til að þoka Rússum í átt til þess að virða Minsk-samkomulagið. Sniðganga Rússa við samkomulagið sýni að þeir hiki ekki við að leggja mikið á sig til að hafa ítök í Úkraínu.

Hvað sem þessu líður segir Nigel Gould-Davis að mun meiri árangur hafi náðst í krafti refsiaðgerðinna en vænta mátti. Raunar sé sjaldgæft að nokkuð úrræði sem gripið sé til að sviði utanríkismála dugi til að ná öllu sem að sé stefnt. Rannsókn á árangri refsiaðgerða sem nær til meira en 100 tilvika sýni að þær dugi best þegar þeim sé beitt gegn lýðræðisríkjum, gegn ríkjum sem megi einangra og milli ríkja sem áður hafi átt náin samskipti. Ekkert af þessu eigi við þegar rætt sé um Rússa í þessu samhengi. Engu að síður hafi árangurinn orðið umtalsverður og á skemmri tíma en venjulega þegar ár og jafnvel áratugir líði áður en hann birtist.

Í greininni er bent á að persónulegar vinsældir Vladimirs Pútíns minnki. Eftir að hann náði endurkjöri sem forseti í mars hafi þær haldið áfram að minnka niður fyrir það sem var við innlimun Krímskaga. Þá hafi rússneskir auðmenn ekki hafið heimflutning á eigum sínum eins og Pútín voni, þvert á móti aukist útstreymi fjármagns frá Rússlandi.

Eftir að upplýst var að Rússar hefðu eitrað fyrir Sergei Skripal, landflótta rússneskum njósnara á Bretlandi, voru boðaðar frekari bandaískar refsingar. Nigel Gould-Davis segir þær verða enn til að þyngja róðurinn fyrir Rússa einkum á sviði orkumála þar sem mikil þörf sé fyrir erlenda tækni og fjármagn, fyrir þetta verði skrúfað og við það vaxi áhyggjur rússneskra stjórnvalda. Í júlí 2018 kynnti rússneska ríkisstjórnin fyrstu alhliða áætlun sína um aðgerðir gegn viðskiptaþvingunum. Nikolai Patrushev, ritari rússneska öryggisráðsins, sagði 3. ágúst 2018 að refsiaðgerðirnar leiddu til „alvarlegra vandræða“ á sviði orkumála. „Frjálslyndir hagfræðingar kippa sér ekki upp við þetta heldur silovikar, starfsmenn öryggislögreglunnar sem ráða lögum og lofum á lykilsviðum, þeim er brugðið,“ segir Nigel Gould-Davies.

Nýjustu refsiaðgerðirnar bíta mest að hans sögn. Bandaríska fjármálaráðuneytið birti í apríl lista yfir Rússa sem það ætlaði að banna aðgang að stærstum hluta fjármálakerfis heimsins. Þetta veki óhug meðal rússneskra auðmanna sem viti ekki hvenær röðin komi að þeim. Markmiðið sé að koma í veg fyrir að rússneska elítan geti hagnast í Rússlandi og sent ágóðan í örugga geymslu í útlöndum. Með því að hafa slíka glufu opna hafi vestræn stjórnvöld auðveldað auðmönnunum að sætta sig við stjórn Pútíns og í raun treyst hann í sessi. Nú verði henni lokað.

Verði viðbrögð vestrænna stjórnvalda til þess að umtalsverður fjöldi rússneskra auðmanna telji aðgerðir Kremlverja vega að hagsmunum sínum kunni viðhorf þeirra til Pútíns að breytast. Þá verði samfellan milli pólitísks valds og ríkidæmis í Rússlandi ekki eins náin og hún hafi verið síðan Pútín setti auðmenninna á þann stað sem hann ákvað á árunum 2000 til 2004. Breytingar verði ekki endilega strax eða í nánustu framtíð en spenna milli ráðamanna á sviði stjórnmála annars vegar og fjármála hins vegar kunni að leiða til breytinga, ekki aðeins á aðgerðum Rússa heldur einnig stjórnarháttum þeirra.

Undir lok greinar sinnar segir Nigel Gould-Davies að gagnrýnendur refsiaðgerða verði að skýra hvaða betri leið Bandaríkjastjórn og bandamenn hennar hafi til að ná markmiðum sínum í öryggismálum. Ekkert tæki sé fullkomið. Refsiaðgerðir beri vott um klókindi, þær kosti lítið og séu ekki banvænar. Aðgerðirnar falli einnig að þeim þáttum þar sem Vesturlönd hafi mestan styrkleika. Rússar hafi vissulega endurnýjað herafla sinn af krafti undanfarin áratug og þeir geti stundað öflugan upplýsingahernað. Endurheimt Rússa á styrkleika sínum hafi vakið undrun og óróleika á Vesturlöndum. Hitt hafi þó ekki breyst að efnahagslega standi Rússar verr að vígi en keppinautar þeirra. Forskot Vesturlanda sé mest á sviði efnahagslegs valds. Það nýtist best með beitingu refsiaðgerða. Áhrif þeirra aukist eftir því sem þeim sé beitt lengur. Reynslan af beitingu þeirra sé dýrmæt þega litið sé til keppni milli ríkja í framtíðinni. Það beri að dæma þær á réttlátan hátt, beita þeim viturlega en ekki kasta þeim fyrir róða.

 

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …