Miðvikudaginn 2. september birtist tilkynning í U.S. Federal Register. lögbirtingarblaði Bandarikjanna, um að Bandaríkjastjórn hefði bætt 29 manns frá Rússlandi og Úkraínu við bannlista sem hún og ESB hafa sett vegna innlimunar Rússa á Krím og atlögu þeirra að sjálfstæði Úkraínu með stuðningi við aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu.
Sumir þeirra sem bætt var á listann hafa tengsl við innanbúðarmenn í Kreml og fyrirtæki sem höfðu áður verið sett á listann. Í hópnum er meðal annarra Gennadíj Timtsjenkó, auðugur olíusali sem talið er að sé handgenginn Vladimír Pútín Rússlandsforseta,
Alls eru 33 fyrirtæki nefnd í tilkynningunni, meðal þeirra eru undirfyrirtæki ríkis-olíurisans Rosneft undir stjórn Igors Setsjíns, bandamanns Pútíns, og fyrirtækið sem smíðar Kalashnikov árásarrifflana. Helsta ferjufyrirtækið á Krím og nokkrar hafnir á skaganunum við Svartahaf sem voru innlimaðar í Rússland í mars 2014 eru á listanum.
Í tilkynningunni kemur fram að bandaríska viðskiptaráðuneytið mun setja einstaklingum og fyrirtækjum þrengri skorður við að fá útgefin úitflutningsleyfi á varningi frá Bandaríkjunum til Rússlands.
Af hálfu Evrópusambandsins var tilkynnt að það mundi framlengja frystingu eigna og bann við útgáfu vegabréfsáritana til 150 Rússa og Úkraínumanna í hópi aðskilnaðarsinna og 37 fyrirtækja sem eru annað hvort á Krím eða eru í tengslum við aðskilnaðarmenn í austurhluta Úkraínu.
Í tilkynningunni felast víðtækari þvingunaraðgerðir en gripið var fyrst til í fyrra en þær beindust að æðstu embættismönnum Rússlands eins og Dmitríj Rogpzin og Dmitríj Kozak varaforsætisráðherrum.
Af hálfu utanríkisráðuneytisins í Moskvu var nýju refsiaðgerðunum lýst sem „ólögmætum“ og í þeim fælist „fjandsamleg afstaða“ Bandaríkjamanna gegn Rússum. Hótað var ótilgreindum gagnaðgerðum. „Bandaríkjamönnum á ekki að dyljast að framhald á þessari braut felur ekki í sér annað en neikvæðar afleiðingar fyrir þá sjálfa,“ sagði ráðuneytið.
Í frétt Reuters um hinar nýju refsiaðgerðir segir að tilraunir ráðamanna í Washington og Brussel til að hafa áhrif Kremlverja hafi skilað blendnum árangri, þeir haldi enn í Krím og leggi enn aðskilnaðarsinnum lið.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) birti skýrslu í ágúst þar sem leiddar eru líkur að því að refsiaðgerðir af hálfu Vesturlanda og gagnaðgerðir Kremlverja hafi minnkað raunverulega landsframleiðslu Rússa um 1°til 1,5%. Alls kunni þetta að leiða 9% samdráttar í vergri landsframleiðslu sagði AGS með miklum fyrirvara,
Aðrir hagfræðingar segja að lækkun á olíuverði undanfarið hafi haft mun neikvæðari áhrif á ríkisfjármál Rússa en viðskiptaþvinganirnar.