Home / Fréttir / Rauð strik Pútins – herafli á heimleið – Lukasjenko í vanda

Rauð strik Pútins – herafli á heimleið – Lukasjenko í vanda

Vladimir Pútin flytur árlega stefnuræðu sína 21. apríl 2021.
Vladimir Pútin flytur árlega stefnuræðu sína 21. apríl 2021.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti flutti árlega stefnuræðu sína miðvikudaginn 21. apríl. Hann getur nú setið sem forseti til 2036. Í september 2021 fara á hinn bóginn fram þingkosningar og skiptir miklu fyrir forsetann að flokkur hans nái þar góðum árangri.

Þungt er undir fæti fyrir rússneska ráðamenn um þessar mundir vegna efnahagsvanda og COVID-19-faraldursins. Þá er sótt að forsetanum vegna meðferðarinnar á helsta opinbera andstæðingi hans Alexei Navalníj sem berst nú fyrir lífi sínu í rússnesku fangelsi. Var efnt til mótmæla gegn Pútin miðvikudaginn 21. apríl í þágu Navalníjs.

Undanfarnar vikur hefur meira en 100.000 rússneskum hermönnum verið safnað saman við landamæri Úkraínu og á Krímskaga. Fréttir fimmtudaginn 22. apríl bentu til þess að hluti herliðsins stefndi nú til búða sinna í Rússlandi eftir að Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, heimsótti Krímskaga.

Á vefsíðu Radio Free Europe/Radio Liberty er ítarlega sagt frá 80 mínútna langri stefnuræðu Pútíns sem snerist að verulegu leyti um innanlandsmál. Höfundar fréttarinnar segja að árum saman hafi utanríkisstefna Pútins verið kynnt Rússum með vísan til sögulegra glæsitíma og fyrirheits um enn glæstari framtíð. Allt frá árinu 2008 þegar rússneskt herlið var sent inn í Georgíu hafi Pútin og menn hans haft sem forgangsmál að nútímavæða herafla landsins. Þeir hafi síðan sýnt hvað í honum býr með skyndisókn inn á Krímskaga árið 2014, með því að senda fastalið til Sýrlands árið 2015, beitingu skyndisveita í Líbíu og nú með því að stefna tugum þúsunda hermanna að landamærum Úkraínu og inn á Krímskaga.

Moskvumenn hafa lýst aðgerðum sínum við Úkraínu á þann veg að þeir hafi orðið að bregðast við yfirgangi ráðamanna í Kænugarði og vestrænna valdamanna. Í ræðu sinni var Pútin þess vegna stórorður þegar hann beindi orðum að Bandaríkjunum og NATO, Rússar hræddust ekki herafla þeirra og mundu slá til baka ef þeim yrði ögrað.

„Við viljum góð samskipti og viljum í raun ekki brenna brýr að baki okkur,“ sagði Pútin. „Misskilji hins vegar einhver góðan ásetning okkar og telji okkur standa á sama eða vera veikburða og ætli sér að brenna eða jafnvel sprengja þessar brýr ætti hann að gera sér grein fyrir að svar Rússa verður ósamhverft, snöggt og hart.“

Pútin sagði einnig:

„Ég vona að enginn ákveði að fara yfir svonefnd rauð strik í samskiptum við Rússa og við munum skilgreina þau [rauðu strikin] sjálfir í öllum tilvikum.“

Fréttaskýrendur segja að með þessum orðum hafi Pútin viljað setja skorður við viðbrögðum Vestursins vegna aðgerða Rússa, stjórnendur Vesturlanda vissu ekki hver þessi rauðu strik væru eða yrðu.

Þeir sem töldu að í ræðu sinni myndi Pútin setja fram kröfur gagnvart ræðumönnum í Kænugarði urðu fyrir vonbrigðum. Forsetinn gaf enga skýringu á vígbúnaðinum andspænis Úkraínu. Hann endurtók í stuttu máli röksemdir stjórnar sinnar að baki innrásinni á Krímskaga og stuðningnum við aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu. Þetta mætti rekja til valdaráns í Kænugarði.

Bent er á að þessi skýring Pútins sé röng en hann noti hana nú til að lýsa því sem við blasi í Hvíta-Rússlandi (Belarus). Alexander Lukasjenko, forseti landsins, býr við það frá endurkjöri sínu í ágúst 2020 að ráðist er á hann með ásökunum um kosningasvindl og stofnað er til áður óþekktra fjöldamótmæla gegn honum í borgum landsins. Lukasjenko neitar að verða við kröfum andstæðinga sinna, hann beitir lögreglu og her af hörku gegn þeim og færir sig nær Pútin og félögum hans í Kreml eftir því sem hann sætir meiri gagnrýni úr vestri.

Í ræðu sinni endurtók Pútin fullyrðingu Lukasjenkos frá laugardeginum 17. apríl um að misheppnuð tilraun til valdaráns hefði verið gerð í Hvíta-Rússlandi.

„Sú árátta að skipuleggja valdarán og leggja á ráðin um pólitísk launmorð á æðstu embættismönnum er yfirgengileg og fer út fyrir öll mörk,“ sagði Pútin án þess að rökstyðja mál sitt frekar.

Fréttaskýrendur töldu að með orðum sínum vildi Pútin gefa til kynna að enn nánari samvinna sín og Lukasjenkos væri á döfinni. Fimmtudaginn 22. apríl sagði talsmaður Pútins hins vegar að samstarf stjórna landsins mótaðist ekki af þeim launráðum sem Lukasjenko hefði lýst.

Alexander Lukasjenko sagði 17. apríl að stjórnarandstæðingurinn Grigoríj Kostusev, stjórnmálaskýrandinn Alexander Feduta og lögfræðingurinn Júrí Zenkovitsj hefðu lagt á ráðin um morðtilraun gegn sér og sonum sínum. Hann kenndi bandarískum sérsveitum og bandarískum ráðamönnum um að standa að baki þessum ráðagerðum. Ivan Tertel, yfirmaður KGB, öryggislögreglu Hvíta-Rússlands, sagði: „Samsærismennirnir ætluðu að ræna völdum nú í sumar, í júní eða júlí.“

Rússneska Tass-fréttastofan sagði 22. apríl að starfsmenn rússnesku öryggislögreglunnar, FSB, hefðu í samvinnu við KGB Hvíta-Rússlands bundið enda á ólöglega starfsemi tveggja manna, annar hefði haft tvöfaldan ríkisborgararétt, bandarískan og hvít-rússneskan, en hinn aðeins hvít-rússneskan. Segði FSB að mennirnir, Jurí Zenkovitsj og Alexander Feduta, hefðu undirbúið valdarán hersins í Hvita-Rússlandi í skjóli fjöldamótmæla. Þjóðernissinnar frá Úkraínu búsettir í Hvíta-Rússlandi tengdust samsærinu sem miðaði að því að ryðja Lukasjenko úr vegi.

Tass vitnar í rannsóknarlögreglumenn í Hvíta-Rússlandi sem segja að unnið hafi verið að valdaránstilrauninni með stuðningi frá mönnum utan Hvíta-Rússlands og náið samband verið á milli samærismannan og hryðjuverkahópa. Fundist hafi áætlanir um þrjár leiðir til að hrifsa völdin.

 

 

 

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …