Home / Fréttir / Rannsóknir í utanríkis- og öryggismálum á Grænlandi

Rannsóknir í utanríkis- og öryggismálum á Grænlandi

Háskóli Grænlands, Ilisimatusarfik.
Háskóli Grænlands, Ilisimatusarfik.

Háskóli Grænlands, Ilisimatusarfik, og Varnarmálaháskólinn, Forsvarsakademiet, í Kaupmannahöfn hafa gert með sér samstarfssamning um rannsóknir og miðlun þekkingar um norðurslóðir segir í frétt grænlenska ríkisútvarpsins, KNR, laugardaginn 5. október.

Þar kemur fram að vaxandi áhugi á norðurslóðum krefjist þess að miðlað verði meiri þekkingu um öryggis- og utanríkismál á Grænlandi. Markmið samstarfssamnings háskólanna er að stuðla að því. Þar verði einnig tekið mið af því að með vaxandi áhuga á norðurslóðum beinist aukin pólitísk athygli að Grænlandi sem miðlægs lands milli stórveldanna.

„Við erum greinilega á leið inn í nýja heimsskipan – eða heimsumrót – þar sem alþjóðlegt gildi Grænlands vex jafnt og þétt. Þess vegna þarfnast Grænlendingar og Danir meiri þekkingar og rannsókna á þróun utanríkis- og öryggismála,“ segir Gitte Adler Reimer, rektor Ilisimatusarfik.

Rektorinn og Peter Dahl, deildarforseti við Varnarmálaháskólann, binda góðar vonir við samstarfið. Dahl telur að í því felist tækifæri til að styrkja stöðu danska ríkjasambandsins á norðurslóðum og í keppni um áhrif þar. Með auknu samstarfi háskólanna geti danska konungsríkið skipað forystusæti þegar fram líða stundir í það þess að hafa stöðu smáríkis í norðurslóðasamstarfinu.

Ráðherra Grænlands á sviði mennta-, menningar- og utanríkismála, Ane Lone Bagger (S), fagnaði samkomulaginu. Það sé mikils virði að þeir sem búa á norðurslóðum fái tækifæri til að miðla af reynslu sinnig og þekkingu á svæðinu.

Skrifað var undir samninginn á milli menntastofnananna í tengslum við ráðstefnu Varnarmálaháskólans sem haldin var í Nuuk í byrjun október undir heitinu: Umbrotatímar í öryggismálum norðurslóða.

Dr. Rasmus Dahlberg, sérfræðingur og kennari við Varnarmálaháskólann, fjallaði um þróun mála á Grænlandi á fundi Varðbergs fimmtudaginn 3. október og lét þess meðal annars getið að það væri til marks um breytta tíma og þróun öryggismála að Varnarmálaháskólinn efndi í fyrsta sinn til ráðstefnu af þessu tagi á Grænlandi.

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …