Home / Fréttir / Rannsakendur í Harvard telja veiruna frá í ágúst 2019

Rannsakendur í Harvard telja veiruna frá í ágúst 2019

Vísindamenn rannsaka kórónuveirur í Helmholtz-smit-rannsóknamiðstöðinni HZI í Brunswick, Þýskalandi.
Vísindamenn rannsaka kórónuveirur í Helmholtz-smit-rannsóknamiðstöðinni HZI í Brunswick, Þýskalandi.

Rannsóknir á vegum Harvard-læknaskólans á gervitunglamyndum af bílastæðum við sjúkrahús í kínversku borginni Wuhan ásamt beitingu leitarvéla leiðir í ljós að líklega hafi COVID-19-faraldurinn hafist mun fyrr en talið hefur verið til þessa.

Við rannsóknina voru skoðaðar meira en 110 gervitunglamyndir af sjúkrahúsum í Wuhan frá janúar 2018 til apríl 2020 auk þess sem leitarvélum var beitt til að afla daglegra gagna með því að nota leitarorð eins og „kvef“ og „niðurgangur“ á kínversku leitarvélinni Baidu með Wuhan sem leitarsvæði frá apríl 2017 til maí 2020.

Í ljós kom að umferð við sjúkrahús jókst ásamt fjölda skráninga sjúkra í Wuhan dagana fyrir skjalfest upphaf SARS-CoV-2-faraldursins í desember 2019.

Þarna er miðað við að nýting bílastæða „jókst hratt“ hjá sjúkrahúsum frá ágúst 2019 þar til hámarki var náð í desember 2019. Í ágúst var leitarorðið „niðurgangur“ slegið inn mun oftar en áður á tíma flensu og leit að því endurspeglaðist ekki í leit að orðinu „kvef“. Orðið „kvef“ er tengt árstíðabundnum sveiflum í tengslum við flensu. „Niðurgangur“ tengist COVID-19 og faraldrinum sem nú gengur.

Þessar niðurstöður hafa ekki verið rýndar af óháðum sérfræðingum og eru birtar með fyrirvara. Rannsakendurnir í Harvard segja hins vegar að það sem þetta leiði í ljós styðji þá kenningu að veiran hafi komist á kreik áður en hún var greind á Huanan-fiskmarkaðinum.

Þá segja Harvard-menn að niðurstöður þeirra styðji þá kenningu að veiran hafi orðið til við náttúrlegar aðstæður í suðurhluta Kína og hafi hugsanlega verið farin að dreifast áður en hún braust út í Wuhan.

 

Skoða einnig

Sænska þingið samþykkir tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál

Sænska þingið samþykkti tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál þriðjudaginn 18. júní. Víðtækur stuðningur var …