Home / Fréttir / Rannsakað hvort Sarkozy fékk kosningafé frá Gaddafi

Rannsakað hvort Sarkozy fékk kosningafé frá Gaddafi

Nicolas Sarkozy og Muammar Gaddafi.
Nicolas Sarkozy og Muammar Gaddafi.

Nicolas Sarkozy, fyrrv. forseti Frakklands, var hnepptur í gæsluvarðhald þriðjudaginn 20. mars vegna áskana um að hann hefði fengið fjárstuðning í forsetakosningabaráttu sinni árið 2007 frá Muammar Gaddafi, harðstjóra í Líbíu.

Rannsóknarlögregla yfirheyrir hann vegna málsins. Verði yfirheyrslunum ekki lokið á 48 klukkustundum verður Sarkozy leiddur fyrir dómara sem úrskurðar um hvort framlengja eigi varðhaldinu. Sarkozy var sleppt úr haldi síðdegis miðvikudaginn 21. mars  Ekkert var sagt um efni málsins þegar hann varð frjáls að nýju.

Sarkozy var forseti til ársins 2012 þegar hann tapaði kosningabaráttu gegn François Hollande, frambjóðanda sósíalista.

Yfirheyrslurnar fara fram í Nanterre, úthverfi í vesturhluta Parísar. Rannsókn málsins hófst árið 2013. Brice Hortefeux, náinn samstarfsmaður Sarkozys, var einnig kallaður til yfirheyrslu 20. mars.

Fylgst er með málinu af áhuga meðal stjórnmálaskýrenda.

Klaus-Dieter Frankenberger, utanríkismálaritstjóri Frankfurter Allgemeine Zeitung, segir í blaðinu miðvikudaginn 21. mars:

„Getur verið að fyrrverandi forseti Frakklands hafi fengið fé frá einræðisherra í Líbíu til að fjármagna kosningabaráttu sína?

Er þetta virkilega hugsanlegt? Að stofnað hafi verið til stríðs og nýrrar ríkisstjórnar til að fjarlægja höfuðvitnin um (ólöglegt) fjárframlag til flokks. Afleiðingin: Upplausn í heilum heimshluta, sundurlimun ríkis, íslamísk hryðjuverk og flóttamannahörmungar. Reynist réttar ásakanirnar um að Sarkozy, fyrrverandi forseti Frakklands, hafi fengið fé frá Gaddafi, harðstjóra í Líbíu, til að fjármagna kosningabaráttu sína árið 2007 væri það einstakt stjórnmálahneyksli. Meira en það: Til þess mætti rekja upphaf gífurlegra, alþjóðlegra mannlegra hörmunga sem hafa lagt hluta af Norður-Afríku í rúst.

Getur þetta þá verið? Eftir allt það sem maður kynnst af kaldhæðni, lygi og spillingu undanfarin ár verður sennilega að svara spurningunni á þennan hátt: Já það getur verið. Þannig er málum nú háttað þegar rætt er um virðingu stjórnmálamanna. Við hlið Sarkozys verður hlutur [Gerhards] Schröders, fyrrv. kanslara, sem gengið hefur í þjónustu einræðisherra [Pútíns] eins og um virðingarstöðu sé að ræða. Þetta á þó ekki aðeins við um stjórnmálamenn. Forsvarsmenn í viðskiptalífinu leggja sig einnig fram um að breyta orðinu „elíta“ í skammaryrði.“

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …