Í danska blaðinu Jyllands-Posten birtist í dag, 19. febrúar, leiðari þar sem litið er til umsátursins um Úkraínu og hvernig Vladimir Pútin gengur fram af offorsi gegn NATO-ríkjunum án þess að hafa erindi sem erfiði. Hér er lausleg þýðing á meginefni leiðarans:
„En nú þegar ögranir Rússa sem leitt hafa til Úkraínu-krísunnar setja allan heiminn í skrúfstykki hlýtur einnig síðasti efasemdarmaðurinn að átta sig á réttmæti gömlu rómversku orðanna: Viljir þú frið, búðu þig þá undir stríð. Allt bendir nú til þess að á næstu árum auki NATO-ríkin útgjöld sín til varnarmála upp í þau 2% af VLF sem samið var um fyrir löngu. Þann mikilvæga lærdóm má draga af hættuástandinu sem nú ríkir.
Þá hlýtur einnig að verða horfið frá þeim misskilningi að leggja megi Vestrið og Rússland að jöfnu, sá boðskapur hljómar eins og bergmál úr kalda stríðinu. Nei, slíkur samjöfnuður gengur ekki og Úkraínu-deilan hefur skerpt skilning á því. Annars vegar er árásargjarnt veldi, Rússland, og hins vegar varnarbandalag lýðræðislegra réttarríkja, NATO, sem stendur vörð um þá grundvallarreglu að frjáls ríki hafi rétt til ákveða leið sína sjálf, þar á meðal afstöðu til bandalaga. Margir vilja gjarnan að litið sé afstætt á þetta grundvallaratriði. Þeim má ekki líða það. NATO er hefðbundið í forystu hins frjálsa heims. Það hefur ekki breyst.
Pútin leikur nú á allt hljómborðið sem hann kynntist hjá KGB forðum daga. Upplýsingafalsanir, undirróður og heræfingar skapa öryggisleysi vegna óvissu um hvað fyrir honum vakir. Allt á þetta að tryggja Moskvuvaldinu að Úkraínu-krísan sé efst á dagskrá alþjóðamála. Kjörorðið er að nýtt, öflugt Rússland sé komið aftur til sögunnar. Það eigi að upphefja áhrifin af hruni Sovétríkjanna sem Pútin telur enn vera hörmulegasta geópólitíska atburð 20. aldarinnar.
Nú í vikunni fór hann fram úr öllum kröfum sínum til þessa með því að heimta að NATO flytti til baka allan herafla frá Austur-Evrópulöndum sem gengið hafa í bandalagið eftir 1997. Af ásetningi er krafan á skjön við skynsemi, eins og hann að sjálfsögu veit, NATO samþykkir hana aldrei. Vegna hennar stækkar hins vegar potturinn á pókerborðinu og deilan frýs en það þjónar hagsmunum Pútins. Ætlunin er að beina athygli frá því að hann hefur alls ekki náð því fram sem hann vildi með tilbúna hættuástandinu vegna Úkraínu.
Frumkrafa Pútins um nýja skipan öryggismála í Evrópu staðfestir að réttmætt er að líta á Rússa sem árásaraðila og NATO sem varnarbandalag; raunar þá friðarhreyfingu sem náð hefur mestum árangri sögunnar. Það er engin þörf á að breyta leikreglunum. NATO ógnar engum. NATO tryggir friðinn og er opið fyrir aðild lýðræðisríkja sem vilja starfa saman. Friðinum er einungis og aðeins ógnað frá Rússlandi Pútins. Fyrir hendi er einnig önnur mikilvæg meginregla: Þeir sem ræða saman skjóta ekki hvor á annan. Þessi regla vísar leiðina út úr núverandi krísu.
Eðli samfélagsins sem Pútin stjórnar birtist einnig á annan hátt um þessar mundir. Rússnesk yfirvöld ganga skipulega til verks við að ýta andófsmönnum til hliðar á heimavelli. Leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Aleksei Navalníj, sem situr nú þegar í fangelsi, hlýtur ef til vill nýjan 15 ára fangelsisdóm fyrir að láta ekki af gagnrýni á stjórnvöld.
Það er andspænis þessu Rússlandi sem Vestrið stendur.“