Home / Fréttir / RAND segir Bandaríkjaher standa halloka gegn Rússum og Kínverjum

RAND segir Bandaríkjaher standa halloka gegn Rússum og Kínverjum

x1512659562582-jpg-pagespeed-ic-undolsc9cr

Bandaríkjamenn tapa að öllum líkindum hernaðarátökum hvort heldur við Rússa eða Kínverja segir bandaríska hugveitan RAND Corporation og telur að Bandaríkjaher skorti þjálfun og viðbragðsflýti.

Nýjasta skýrsla RAND-stofnunarinnar í Kaliforníu ber heitið US Military Capabilities and Forces for a Dangerous World hefur að geyma þá spá að Bandaríkjaher færi líklega halloka gegn Rússum í Evrópu og Kínverjum vegna Tævan.

Því er haldið fram í 190 bls. skýrslunni að tækniframfarir undanfarin ár hafi leitt til þess að Rússar og Kínverjar séu nú á því stigi að þeir geti skákað Bandaríkjamönnum á sumum sviðum hernaðar. Bent er á að ónógar fjárveitingar og skortur á mannafla til að fylgja fram „metnaðarfullum“ bandarískum hernaðaráætlunum séu Bandaríkjaher fjötur um fót.

„Sé þetta sagt á skýrari hátt bendir mat í þessari skýrslu til þess að Bandaríkjaher gæti við líklegar aðstæður tapað næst þegar hann er sendur til stríðsátaka, þótt útgjöld Bandaríkjamanna til hermála séu 2,7:1 þegar litið er til Kínverja og 6:1 þegar litið er til Rússa,“ segir í skýrslunni. „Þjóðin verður að gera betur en þetta.·

Skýrsluhöfundar segja að NATO gæti ekki heldur staðist „markvissa rússneska árás sem gerð er með skömmum fyrirvara“ þrátt fyrir að milljörðum dollara sé varið til að senda herlið að rússnesku landamærunum á Eystrasaltssvæðinu.

„Í stuttu máli er það niðurstaða okkar að með núverandi skipan herafla geti NATO ekki varið Eystrasaltsríkin gegn markvissri rússneskri árás sem gerð er með skömmum fyrirvara,“ segir í skýrslunni.

Sviðsmyndir varðandi Kína snúast sérstaklega um átök vegna Tævan og hugsanlega tilraun kínverskra stjórnvalda til að leggja eyjuna og sjálfstæða lýðveldið þar undir Kína að nýju.

Bandaríkjastjórn hefur ábyrgst sjálfstæði Tævans og neitar einnig að viðurkenna útþenslu Kínverja á Suður-Kínahafi. Hafa bandarísk herskip verið send að kínverskum eyjum þar til að vernda „frjálsar siglingar“ á umdeildu hafsvæði.

RAND segir að það yrði erfitt fyrir Bandaríkjamenn að verja Tævan vegna þess hve vel Kínverjar hafi lagað sig að því hvernig varnir eyjunnar eru skipulagðar. Herstyrkur þeirra taki mið af því.

Ábendingar á borð við þær sem RAND gerir hafa leitt til þess að stjórn Donalds Trumps hefur aukið hernaðarútgjöld Bandaríkjanna um rúmlega 600 milljarða dollara á ári. Er það fordæmalaus hækkun.

Heimild: Iran Press TV.

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …